Gunnar Örlygsson alþingismaður hefur óskað eftir inngöngu í þingflokk Sjálfstæðisflokksins. Samkvæmt áreiðanlegum heimildum Viðskiptablaðsins verður beiðnin tekin fyrir á þingflokksfundi sjálfstæðismanna í kvöld og má fastlega gera ráð fyrir að hún verði samþykkt. Við þetta fækkar þingmönnum Frjálslynda flokksins í þrjá. Þeir verða Guðjón Arnar Kristjánsson, Magnús Þór Hafsteinsson og Sigurjón Þórðarson. Liðsmönnum sjálfstæðisflokksins á þingi fjölgar í 23.

Liðskiptin eru ekki síst þýðingarmikil að því leyti, að við þau stækkar meirihluti ríkisstjórnarinnar á Alþingi. Stjórnarliðar verða 35 á móti 28 stjórnarandstæðingum, í staðinn fyrir 34 á móti 29. Það þýðir að fjórir stjórnarliðar þurfa að leggjast á sveif með stjórnarandstöðunni til þess að stjórnin missi meirihluta. Til þessa hefur stjórnarandstöðunni dugað að fá þrjá stjórnarliða í lið með sér til þess að fella mál frá stjórnarflokkunum.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hafa félagar Gunnars í þingflokki Frjálslynda flokksins ýtrekað gert athugasemdir við mætingu hans í þinginu. Nú síðast á mánudaginn kom til orðahnippinga milli hans og Sigurjóns Þórðarsonar út af þessu máli þar sem Sigurjón gagnrýndi Gunnar fyrir að hafa ekki mætt en þetta var einn helsti annadagur þingsins.