Friðleifur Egill Guðmundsson lögmaður er áhugabruggari og svo skemmtilega vill til að hans fyrsti heimagerði bjór var jólabjór sem hann gerði fyrir síðustu jól.

„Fyrsta skrefið hjá mér var að skrá mig á spjallborð Fágunar, félags áhugamanna um gerjun, og kynnti mér málið betur. Á spjallborðinu er gríðarlega mikið af upplýsingum og fann ég fljótlega uppskrift að jólabjór sem mér leist vel á. Ég keypti einfaldar og ódýrar græjur í ámunni og nálgaðist svo efniviðinn í bjórinn hjá Hrafnkatli á brew.is. Þessi tilraun tókst svo flennivel og maður komst þarna að því að maður getur gert gæðabjór heima hjá sér. Síðan þá hef ég einnig gert pale ale og IPA með ágætum árangri,“ segir Friðleifur.

Líklega mest vandræði með hreinlætið

Eins og áður segir var bjórinn gerður með ódýrustu græjum sem Friðleifur fann. „Græjurnar hafa líklega kostað mig um 15.000 krónur og ég fékk á bilinu 30-40 flöskur úr þessari fyrstu lögn. Fjárhagslega er þetta því fljótt að borga sig. Mesta vinnan í þessu er átöppun á flöskur, sem getur verið svolítið maus.“

Aðspurður segist hann halda að flestir nýgræðingar lendi í vandræðum hvað varðar hreinlæti við bruggun. „Maður verður að passa vel upp á að allt sé vel sótthreinsað, en svo verður líka að gæta að því að hitastig sé rétt þegar verið er að meskja. Ég bjó hins vegar að því að þessi vinur minn hafði gert þetta áður og leiðbeindi mér.“

Að lokum vill Friðleifur ítreka það hversu mikla hjálp hann fékk á spjallborði Fágunar. „Ég verð að hrósa fólkinu á Fágun. Þar er hægt að nálgast gríðarlega mikið af upplýsingum, menn deila þar sigrum sínum og ósigrum og leysa vandamál hver hjá öðrum. Þetta er mjög virkt og gott samfélag.“

Nánar er fjallað um málið í Jólagjafahandbókinni sem fylgir Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .