Í Kína er hæsta hús í heimi í byggingu en stefnt er að því að klára bygginguna í apríl 2014. Byggingin verður 838 metrar að hæð. Það sem vekur athygli er að fyrsta skóflustungan var tekin fyrir sex dögum síðan eða 20. júlí. Áætlaður byggingartími er því aðeins 10 mánuðir sem vekur furðu margra.

Hæsti skýjakljúfur í heimi er Burj Khalifa í Dubaí (828 m). Það tók fimm ár að byggja skýjakljúfinn sem á tæpt ár eftir sem hæsta hús í heimi.

Þeir sem hafa furðað sig á hraðanum í tengslum við framkvæmdirnar spyrja sig hvernig hægt sé að byggja svo hátt hús á 10 mánuðum. Einn netverji sagði að húsið eigi eftir að líkjast risastórri hrúgu af hjólhýsum.

Mikið líf er í byggingaframkvæmdum í Kína um þessar mundir en önnur hús sem eru í byggingu eru eftirfarandi:

  • Shanghai Tower, 632 metrar að hæð, tilbúinn 2014.
  • Goldin Finance 117, Tianjin, 597 metrar, tilbúinn 2015.
  • Ping An Finance Center, Shenzhen, 660 metrar, tilbúinn 2016.
  • Greenland Center, Wuhan, 636 metrar, tilbúinn 2017.
  • Golden Rooster Tower, Suzhou, 700 metrar, tilbúinn: óákveðið.

Í yfir 10 borgum í Kína eru uppi áform um að byggja háhýsi sem eru hærri en One World Trade Center, 541 metra há bygging sem á að opna í New York snemma árs 2014. Í skýrslu um byggingar í Kína eru 470 skýjakljúfar (byggingar hærri en 152 metrar) í landinu, 332 í byggingu og 516 á teikniborðinu. Sjá nánar á CNN .