Ekkert verður af kaupum ferðaþjónustufyrirtækisins Arctic Adventures á Into the Glacier sem rekur ísgöngin í Langjökli samkvæmt heimildum ViðskiptaMoggans . Greint var frá því í byrjun þessa árs að Arctic Adventures hefði komist að samkomulagi við framtakssjóðinn, Icelandic Tourism Fund (ITF) sem rekinn er af Landsbréfum, um sameiningu félaganna tveggja en samanlögð velta þeirra nam um 7 milljörðum króna á síðasta ári.

Samkomulagið fól í sér að Arctic Adventures myndi kaupa alla hluti í Into the Glacier ehf. af Icelandic Tourism Fund (ITF) og Sigurði Skarphéðinssyni framkvæmdastjóra Into the Glacier og að kaupverðið yrði greitt með hlutum í Arctic. Samkomulagið fól einnig í sér að Arctic Adventurs keypti hlut ITF í Óbyggðasetrinu í Fljótsdal, Raufarhólshelli, Borea Adventures á Ísafirði og leiksýningunni „Icelandic Sagas - The greatest hits“ sem sýnd er í Hörpu en eins og Viðskiptablaðið greindi frá í lok maí voru eignir félaganna fimm metnar á um 2 milljarða í ársreikningi ITF fyrir síðasta ár. Ekki kemur fram í frétt ViðskiptaMoggans hvort einnig verði fallið frá kaupum á hlut ITF í hinum fjórum félögunum.

Samkvæmt frétt ViðskiptaMoggans hafa viðræður um kaupinn staðið yfir allt frá því að skrifað var undir  samkomulagið sem var gert með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins og niðurstöðu áreiðanleikakönnunar. Í júní sögðu bæði Jón Þór Gunnarsson, fráfarandi forstjóri Arctic Adventures og Sigurður Skarphéðinsson, framkvæmdastjóri Into the Glacier að enn væri vilji til þess að ganga frá viðskiptunum sem höfðu tafist töluvert meðal annars vegna að heimild frá Samkeppniseftirlitinu lá ekki fyrir fyrr en í lok apríl.

Að sögn ViðskiptaMoggans er hins vegar núna orðið ljóst að Into the Glacier mun enn um sinn haldast í eigu ITF.