Hersir Sigurgeirsson, dósent við Viðskiptafræðideild HÍ, furðar sig á vinnubrögðum Bankasýslu ríkisins í tengslum við úttekt Ríkisendurskoðunar á útboði á 22,5% hlut ríkisins í Íslandsbanka. Bankasýslan gerði athugasemd við að Hersir, sem var fenginn til ráðgjafar hjá Ríkisendurskoðun við úttektina, hafi sett „like“ á færslu á Facebook sem varðaði útboðið.

Hersir segist hafa fengið símtal í fyrradag frá ríkisendurskoðanda vegna þriggja blaðsíðna bréfs sem Bankasýslan sendi embættinu. Bréfið var undirritað af Jóni Gunnari Jónssyni, forstjóra Bankasýslunnar, að sögn Hersis.

„Ég sé ekki aðra skýringu á bréfaskrifum Bankasýslunnar en að hún telji sig geta notað þau til að kasta rýrð á úttekt Ríkisendurskoðunar ef einhverjar niðurstöður hennar verða stofnuninni ekki að skapi. Það hugnast mér ekki og því ákvað ég í gær að ljúka aðkomu minni að úttektinni,“ skrifar Hersir á Facebook.

Hann segist hafa tekið að sér verkefnið til að leggja sitt að mörkum að gera úttektina betri. Það hafi þó verið ástæða til að staldra við þegar forstjóri og starfsmenn Bankasýslunnar væru farnir að „verja tíma sínum í að rekja ferðir mínar á samfélagsmiðlum og tilkynna skriflega, rafrænt undirritað, um “like”“.

„Það er alvarlegt þegar starfsmenn ríkisstofnunar telja eðlilegt að leggjast í rannsókn á skoðunum ráðgjafa óháðra úttektaraðila og gera það á jafn hæpnum og huglægum forsendum og hér birtast,“ segir Hersir. „Það er ekki hægt að setja “like” við þessi vinnubrögð og ljóst að nauðsynlegt er að opinbera þau.“

Þann 7. apríl óskaði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, formlega eftir að Ríkisendurskoðun myndi gera úttekt á því hvort útboð Bankasýslunnar, sem fór fram þann 22. mars síðastliðinn, hafi samrýmst lögum og góðum stjórnsýsluháttum. Ríkisendurskoðun stefnir að því að birta niðurstöðu úttektarinnar í næsta mánuði.