Félagið IP Studium Reykjavík ehf., sem er í eigu Ingibjargar Pálmadóttur, hagnaðist um 111,5 milljónir á síðasta ári samanborið við 67 milljóna tap árið áður. IP Studium á 20% hlut í 365 miðlum en félög í eigu Ingibjargar eiga samtals tæplega 90% í fjölmiðlafyrirtækinu.

Eignir IP Studium voru að verðmæti um 990 milljónir króna um síðustu áramót samkvæmt ársreikningi félagsins. Þar af voru fasteignir að verðmæti 535 milljónir og eignarhlutur í 365 miðlum nam um 415 milljónum.

Hagnaður síðasta árs var að mestu tilkominn vegna hlutdeildar í afkomu 365 miðla, eða um 100 milljónir króna. Skuldir IP Studium námu um 390 milljónum um áramót en hlutafé félagsins var aukið á síðasta ári um 140 milljónir.