*

þriðjudagur, 21. september 2021
Innlent 28. júlí 2021 16:23

Hagnaður Íslandsbanka þrefaldaðist

Hagnaður Íslandsbanka á öðrum fjórðungi ársins nam 5,4 milljörðum króna miðað við 1,2 milljarða króna árið áður.

Snær Snæbjörnsson
Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka.

Hagnaður Íslandsbanka á öðrum fjórðungi ársins nam 5,4 milljörðum króna. Hagnaður ríflega þrefaldaðist á milli ára en á sama tímabili í fyrra var hagnaður bankans um 1,2 milljarðar króna. Hagnaður á fyrsta helmingi ársins nam um 9 milljörðum króna miðað við 131 milljón króna tapi á fyrsta misseri ársins 2020. 

Sjá einnig: Arion hagnast um 7,8 milljarða

Arðsemi eigin fjár var 11,6% á ársgrundvelli miðað við 2,8% á sama tíma í fyrra. Hreinar vaxtatekjur hækkuðu um 200 milljónir króna á árinu. Þá hækkuðu þóknanatekjur um 26% á milli ára og námu samtals 2,9 milljörðum króna.

Kostnaðarhlutfall bankans lækkaði á fjórðungnum og nam 49,9% miðað við 57,5% á síðasta ári. Stjórnunarkostnaður bankans hækkaði um rúm 10,5% á milli ára og var um 6,5 milljarðar króna. Virðisrýrnun var jákvæð á fjórðungnum um 1,1 milljarð króna miðað við neikvæða rýrnun um 2,4 milljarða króna árið á undan vegna áhrifa faraldursins. Viðsnúningurinn skýrist aðallega vegna batnandi útlits í ferðaþjónustunni.

Sjá einnig: Hagnast um 14,1 milljarð frá áramótum

Virðisbreyting útlána til viðskiptavina var neikvætt um 0,42% borið saman við 1,03% á öðrum fjórðungi ársins 2020. Útlán jukust um 5,9% á tímabilinu og um 8,2% frá árslokum sem skýrist af spennu á íbúðamarkaði og aukinna umsvifa í húsnæðislánum en einnig vegna aukins vaxtar í lánum til fyrirtækja. 

Eigið fé bankans nam 190 milljörðum króna í lok fjórðungsins. Eiginfjárhlutfall bankans var 22,9% og hækkar um prósentustig frá lokum síðasta fjórðungs og því nokkuð yfir 18,3 til 19,8% markmiðum bankans. Eignir bankans jukust um 4,5% á milli ára og námu 1.447 milljörðum króna í lok tímabilsins. Útlán til viðskiptavina námu 1.090 milljörðum króna, innlán 766 milljörðum króna og áhættuvegnar eignir 765 milljörðum.

Innlán jukust um 67 milljarða króna á fjórðungnum sem skýrist af uppgjöri vegna sölu bankans og hækkunin því sennilega tímabundin. Frá áramótum hafa innlán aukist um 86 milljarða króna. 

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka:

Við erum ánægð með rekstrarniðurstöðu Íslandsbanka á öðrum ársfjórðungi sem var 5,4 milljarðar en það samsvarar 11,6% arðsemi á ársgrundvelli og er yfir fjárhagslegum markmiðum bankans. Virðisrýrnun á fjórðungnum var jákvæð um 1,1 milljarð króna og er það mikill viðsnúningur frá öðrum ársfjórðungi í fyrra þar sem COVID-19 hafði mikil áhrif. Góður gangur er í þóknunum miðað við sama tímabil í fyrra og kostnaðarhlutfallið er rétt undir 50%. Lánasafnið heldur áfram að stækka og hefur vaxið um rúmlega 8% frá áramótum. Við sjáum að vöxturinn er helstur í húsnæðislánum þar sem góður gangur hefur verið á fasteignamarkaðnum síðustu misseri en einnig hefur verið aukning í útlánum bæði til minni og stærri fyrirtækja.

Það má með sanni segja að fyrri helmingur ársins hafi verið viðburðaríkur hjá bankanum. Hlutabréf Íslandsbanka voru tekin til viðskipta á Aðalmarkaði Nasdaq Iceland þann 22. júní. Um var að ræða stærsta frumútboð hlutabréfa sem farið hefur fram hér á landi. Metþátttaka var í hlutafjárútboðinu og margföld umframeftirspurn og er bankinn með mesta fjölda hluthafa allra skráðra félaga á Íslandi.

Stikkorð: Íslandsbanki