Hagnaður Arion banka nam 7,8 milljörðum króna á öðrum ársfjórðungi, samanborið við 4,9 milljarða á sama tíma í fyrra. Arðsemi eigin fjár jókst úr 10,5% í 16,3% milli ára. „Afkoman er mun betri á öllum sviðum bankans,“ segir í tilkynningu Arion til Kauphallarinnar.

Hreinn vaxtamunur stóð óbreyttur í 2,9%. Tekjur af kjarnastarfsemi námu 12,5 milljörðum króna og jukust um 10,5% frá fyrra ári. Kostnaðarhlutfallið lækkaði um þrjú prósent frá síðasta ári og var 42,5%.

Lán til viðskiptavina jukust um 2,6% frá áramótum en íbúðalán hækkuðu um 9.6% á sama tíma. Heildareignir bankans jukust um 3,9% frá áramótum og námu 1.218 milljörðum króna í lok júní. Eiginfjárhlutfall bankans var 27,2% og hlutfall almenns eiginfjárþáttar 1 var 22,7% í lok júní.

Arðgreiðsla og endurkaup á hlutabréfum bankans námu 17,8 milljörðum króna á fyrstu sex mánuðunum. Í tilkynningu Arion segir að þrátt fyrir endurkaup á hlutabréfum og arðgreiðslu hafi lausafé bankans aukist um 7,3%. Þá kemur fram að bankinn sé í „mjög góðri stöðu“ til að lækka eigið fé með útgreiðslum.

„Eiginfjárhlutfall bankans er áfram með því hæsta sem gerist í Evrópu og lausafjárhlutfall sterkara en hjá sambærilegum evrópskum bönkum. Bankinn hefur fengið heimild frá Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands til að hefja endurkaup eigin bréfa og mun hrinda endurkaupaáætlun upp á fjóra milljarða króna í framkvæmd á morgun, 29. júlí,“ segir Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion.

Þann 1. júlí síðastliðinn tilkynnti Arion að samkomulag hefði náðst um sölu á Valitor til Rapyd. Kaupverðið nemur 100 milljónum dala, eða um 12,6 milljörðum króna miðað við núverandi gengi. Áætlað er að kaupin klárist í lok árs en Samkeppniseftirlitið er nú með samrunann til skoðunar.

Blása til sóknar á tryggingamarkaði

Í tilkynningu Arion segir að samtvinnun banka- og tryggingastarfsemi verði í lykilhlutverki næstu mánuðina þegar Vörður flytur í höfuðstöðvar Arion banka og samstarf félagsins og viðskiptabankasviðs verður styrkt enn frekar.

„Vörður, dótturfélag bankans, er afar vel rekið tryggingafélag sem hefur verið að auka við markaðshlutdeild sína á undanförnum árum. Við höfum nú hafið vinnu við að færa starfsemi Varðar nær starfsemi bankans til að efla samstarf félaganna og blása til sóknar á tryggingamarkaði. Þannig ætlum við að nýta styrkleika hvors félags enn betur og efla slagkraftinn. Eitt af því sem Arion banki mun leggja af mörkum í nánara samstarfi félaganna er öflugar sölu- og þjónustuleiðir eins og Arion appið. Vörður verður áfram sjálfstætt félag með sitt eigið vörumerki,“ segir Benedikt.