*

föstudagur, 5. júní 2020
Innlent 29. apríl 2019 21:01

Hagnaður Marel eykst

Hagnaður Marel var 14% hærri á fyrstu þrem mánuðum ársins en í fyrra. Stefnt er að skráningu í Amsterdam snemmsumars.

Ritstjórn
Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel.
Haraldur Guðjónsson

Marel hagnaðist um 32,2 milljónir evra, sem svarar 4,4 milljörðum króna á fyrstu þremur mánuðum ársins. Hagnaðurinn á sama tíma fyrir ári nam 28,3 milljónum evra og jókst því um 14% milli ára.

Skráð snemmsumars í Amsterdam

Marel stefnir á tvíhliða skráningu á markað í Amsterdam snemmsumars með fyrirvara um markaðsaðstæðu. Félagið verður áfram skráð í íslensku kauphöllina samhliða skráningunni í Hollandi. Það mun halda Kauphallardag á fimmtudaginn í nýsköpunar- og framleiðslustarfsstöð félagsins í Boxmeer, Holland í tengslum við skráninguna. Þar munu lykilstjórnendur Marel munu flytja erindi, fyrir fjárfesta og markaðsaðila, um vöxt Marel frá sprotafyrirtæki til leiðtoga á sínu sviði á heimsvísu. Auk þess verður farið yfir markaðshorfur, lykiltölur úr rekstri, viðskiptamódel og vaxtarstefnu.

Tekjur og pantanir aukast

Pantanir námu 323,3 milljónum evra sem er 3 milljónum evra meira en á sama tíma fyrir ári. Tekjur námu 324,6 milljónum evra en voru 288,4 milljónir evra á sama tíma fyrir ári. Þá var rekstrarhagnaður (EBIT) 47,5 milljónir evra en var 43,8 milljónir evra í upphafi árs 2018, sem samsvarar 14,6% af tekjum miðað við 15,2% á sama tíma fyrir ári.

Hagnaður á hlut (EPS) var 4,85 evru sent en 4,11 evru sent fyrir ár. Þá var handbært fé frá rekstri fyrir fjármagnsliði og skatta 59,6 milljónir evra miðað við 55,6 milljónir evra fyrir ári.  Pantanabókin stóð í 474,7 milljónum evra við lok fyrsta ársfjórðungs en 528,7 milljónum evra í lok mars 2018.

Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel segist sáttur með niðurstöðuna. „Við erum ánægð með góða byrjun á árinu þar sem tekjur aukast um 13% á fyrsta ársfjórðungi samanborið við sama tímabil í fyrra. Áfram skilum við góðum rekstri með 14,6% EBIT sem er í línu við framlegð fyrir allt árið 2018. 

Mótteknar pantanir voru 323 milljónir sem er aukning frá fyrri ársfjórðungum og standa nærri hæsta gildi pantana frá fyrsta ársfjórðungi síðasta árs. Við störfum á breytilegum og ört vaxandi markaði þar sem neytendur um allan heim sækjast eftir jafnvægi í mataræði þar sem fiskur, kjöt og kjúklingur eru mikilvæg undirstaða. Lykill að góðri sölu er framsækið vöruframboð og víðfeðmt sölu- og þjónustunet í öllum heimsálfum. Á fyrsta ársfjórðungi var aukning í pöntunum á stærri verkefnum í Asíu og Kína, en markaðir í Evrópu og Bandaríkjunum hafa verið nokkuð stöðugir.

Framundan eru kjötiðnaðarsýning IFFA í Frankfurt og sjávarútvegssýningin í Brussel þar sem við munum kynna fjölda nýrra lausna til leiks. Áhersla okkar þar er á aukna sjálfvirkni og sveigjanleika til að gera framleiðendum kleift að afhenda viðskiptavinum sínum hentug, örugg og hagkvæm matvæli sem framleidd eru á sjálfbæran hátt," segir Árni Oddur.

Markmiðið 12% vöxtur á ári

Marel hefur sett sér markmið um 12% meðalvöxt á ári yfir tímabilið 2017-2026 með innri vexti og yfirtökum á fyrirtækjum. Félagið gerir ráð fyrir að almennur markaðsvöxtur nemi 4-6% til lengri tíma en það geti vaxið hraðar en markaðurinn almennt.