Hagnaður bandaríska kreditkorta- og afþreyingarfélagsins American Express dróst saman um 72% á fjórða ársfjórðungi síðasta árs í kjölfar minni einkaneyslu, vaxandi vanskila á kreditkortaskuldum og styrkingu Banaríkjadals.

Fram kemur í frétt Reuters að þrátt fyrir mikinn samdrátt er hagnaðurinn betri en búist var við.

Hagnaður félagsins nam aðeins tæpum 240 milljónum dala á tímabilinu eða því sem nemur 21 centi á hvern hlut, samanborið við hagnað upp á 858 milljón dali árið áður eða 74 centum á hvern hlut en þá hafði hagnaður félagsins þegar dregist nokkuð saman.

Dan Hendry, fjármálastjóri American Express segir í yfirlýsingu frá félaginu að allt útlit sé fyrir að kreditkortanotkun einstaklinga muni ekki aukast á næstunni en félagið búist einnig við frekari vanskilum.

American Express fékk í haust viðskiptabankaleyfi frá bandarískum yfirvöldum og í leiðinni tæpa 3,4 milljarða dali úr björgunarsjóðnum svokallaða.

Rétt er að taka fram að í Bandaríkjunum nota einstaklingar kreditkort á svipaðan hátt og Íslendingar nota yfirdráttarheimildir. Þannig eiga einstaklingar það til að safna skuldum á kortið og semja síðan um afborganir við kreditkortafélagið en vanskil á slíkum afborgunum hafa aukist verulega.

Tekjur félagsins drógust saman um 11% á tímabilinu og námu um 6,5 milljörðum dala.