Hagnaður frönsku smásölukeðjunnar Carrefour var 149,3 milljarðar króna á árinu 2005 en til samanburðar var afkoman 147,7 milljarðar árið 2004, segir greiningardeild Íslandsbanka.

Afkoman var lítillega betri en meðalspá greinenda, sem var 146,8 milljarðar.

Í heildina jókst sala árið 2005 um 3% frá árinu 2004 en salan í Frakklandi dróst lítillega saman en jókst um 4% í öðrum Evrópulöndum og um 13% í Asíu.

Rekstrarumhverfið var krefjandi í Frakklandi á árinu, lítill vöxtur og mikil verðsamkeppni.

Carrefour er stærsta smásölukeðja Frakklands og er mikilvægur viðskiptavinur Alfesca.

Fyrirtækið er auk þess með mikla markaðshlutdeild í öðrum löndum á meginlandi Evrópu. Þá hefur félagið vaxið hratt í Ameríku og Asíu á síðustu árum og er næst stærsta smásölukeðja heims.

Carrefour hyggst auka umsvif sín á næstu þremur árum með því að opna fjölda nýrra stórmarkaða með sérstaklega mikilli áherslu á mesta vaxtarmarkaðinn, Asíu, segir greiningardeildin.