Samkvæmt ársreikningi var hagnaður fasteignafélagsins Eikar á síðasta ári 1,7 milljarðar króna sem er 360% aukning frá árinu   2006.

Velta Eikar var 1,4 milljarðar króna á árinu, sem er 19% aukning frá árinu 2006.  EBITDA var 1 milljarður króna á árinu, sem er 19% aukning frá árinu 2006 en arðsemi eigin fjár var 110%, sem er 81% aukning frá árinu 2006. Heildareignir félagsins voru að andvirði 17,2 milljarða króna og hafa þær vaxið um 18% frá árinu 2006.

Í tilkynningu vegna uppgjörsins segir að starfsemi Eikar fasteignafélags hf. sé fyrst og fremst falin í útleigu húsnæðis og fjárhagsleg áhætta félagsins því aðallega þar, ásamt áhættu vegna  fjármagnskostnaðar og gengisbreytinga. Staða Eikar fasteignafélags hf. á leigumarkaði er sterk og mikil ásókn í leiguhúsnæðis hjá félaginu. Vel flestar eignir félagsins eru í útleigu. Gera má ráð fyrir að á árinu 2008 gefist tækifæri til leiguhækkana. Yfirgnæfandi meirihluti lána félagsins eru í íslenskum krónum og með föstum vöxtum. Á móti erlendum lánum er félagið með leigutekjur í erlendum gjaldmiðlum. Vaxta- og gengisbreytingar hafa því lítil áhrif á félagið.

Breytingar á eignasafni

Árið 2007 seldi Eik fasteignafélag hf. þrjár fasteignir úr eignasafni sínu: Dalshraun 13 í Hafnarfirði og Hverfisgötu 26 og Seljaveg 2 í Reykjavík. Þá var tveimur eignum bætt við eignasafn fyrirtækisins á sama tímabili, þar á meðal einkahlutafélagið Ingólfsstræti 1a ehf., sem á samnefnda eign í Reykjavík.

Í upphafi ársins 2007 var Eik fasteignafélag hf. selt til Eikarhalds ehf. Við kaupin voru eigendur félagsins FL Group hf., Baugur Group hf., Saxbygg ehf. og Fjárfestingarfélagið Primus ehf. Síðar á árinu seldi Baugur Group hf. sinn hlut í Eikarhaldi ehf. til FL Group hf., sem á nú meirihluta í félaginu.

Framtíð Eikar fasteignafélags hf.

Í ljósi þess að staða útleigumála hjá fyrirtækinu er mjög sterk og félagið vel varið gagnvart þeim erfiðu aðstæðum sem kunna að skapast á fjármálamarkaði á árinu 2008, er framtíð Eikar fasteignafélags hf. björt. Fyrirtækið er tilbúið til þess að takast á við samdrátt í íslensku efnahagslífi, á sama tíma og Eik fasteignafélag hf. er undir það búið að treysta rætur sínar enn frekar á komandi ári.