Hagnaður Össurar árið 2006 nam 4,36 milljónum Bandaríkjadala (296 milljónum króna), samanborið við 11,69 milljónir Bandaríkjadala (794 milljónir króna) árið áður, segir í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Hagnaður fyrir afskriftir, vexti og skatta (EBITDA), án einskiptiskostnaðar, nam 47,9 milljónum Bandaríkjadala, sem samsvarar 3,3 milljörðum króna, en það er 47% aukning frá árinu áður, segir í tilkynningunni.

Hagnaður tímabilsins án einskiptiskostnaðar vegna endurskipulagningar var 9,7 milljónir dala (677 milljónir íslenskra króna), samanborið við 15,6 milljónir árið 2005.  Að undanskildum einskiptiskostnaði vegna endurskipulagningar og afskriftum óefnislegra eigna vegna fyrirtækjakaupa á síðustu misserum, var hagnaður tímabilsins 17,0 milljónir dala, samanborið við 17,9 milljónir árið 2005 sem jafngildir lækkun um 5%.

Sala fyrirtækisins jókst um 57% á árinu og nam 17,6 milljörðum króna, en söluaukning vegna innri vaxtar var 9%.

Á fjórða ársfjórðungi 2006 var 3,7 milljóna Bandaríkjadala tap á rekstri Össurar, samanborið við 3,1 milljón dala hagnað árinu áður. Sala fjórðungsins nam 4,4 milljörðum króna, sem er 29% aukning frá sama tímabili 2005, segir í tilkynningunni. Hagnaður fyrir afskriftir, vexti og skatta (EBITDA) á ársfjórðungnum, án einskiptiskostnaðar, var 766 milljónir króna og jókst um 25% samanborið við fjórða fjórðung 2005.

"Síðasta ár einkenndist af umbreytingum og metvexti. Við höfum séð Össur breytast úr stoðtækjafyrirtæki í forystufyrirtæki á sviði stoð- og stuðningstækja. Á undanförnum 18 mánuðum höfum við keypt fjögur stór fyrirtæki ásamt nokkrum smærri og á sama tíma viðhaldið mjög góðum innri vexti í stoðtækjum," segir Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar.

"Í desember keyptum við Gibaud Group í Frakklandi og erum nú meðal stærstu fyrirtækja á sviði spelkna og stuðningstækja í Evrópu. Sala á spelkum og stuðningsvörum er nú rúmlega helmingur af sölu Össurar. Með kaupunum á Gibaud bætist við ný vörulína sem eru vörur til notkunar við blóðrásarmeðferðir. Þó svo að endurskipulagning hafi verið fyrirferðarmikil á árinu þá kynntum við einnig nýjar og framúrskarandi hátæknivörur sem hafa hlotið verðskuldaða athygli og viðurkenningar meðal fagmanna sem og notenda. Það hefur verið áskorun að viðhalda arðsemi á þessum tíma umbreytinga og eru niðurstöður ársins viðunandi. Við erum þess fullviss að við höfum skapað góðan grundvöll til að ná metnaðarfullum markmiðum Össurar um framtíðarvöxt og arðsemi," segir Jón.