Hagnaður Sparisjóðabankans nam 647 milljónir króna á fyrri hluta ársins og tífaldaðist miðað við sama tímabil í fyrra. Afkoma og arðsemi eigin fjár bankans var betri en nokkru sinni fyrr. Arðsemi eigin fjár eftir skatta fyrstu sex mánuði 2004 nam 52,5% en var 5,6% á sama tímabili í fyrra.

Þróun á innlendum hlutabréfamarkaði var bankanum afar hagstæð á tímabilinu. Munar þar mest um hækkun á 5,8% eignarhlut bankans í fjárfestingarfélaginu Meiði sem er stærsti hluthafinn í Bakkavör Group og KB banka. Einnig hækkuðu flest önnur innlend hlutabréf í eigu bankans í verði. Lítilsháttar hagnaður varð hins vegar af eign bankans í innlendum skuldabréfum og erlendum hluta- og skuldabréfum að teknu tilliti til reiknaðs vaxtakostnaðar af því fjármagni sem bundið er í þessum verðbréfum. Hagnaður af verðbréfaeign bankans er meginuppistaðan í liðnum aðrar rekstrartekjur sem nam 971 milljón króna á fyrri hluta ársins 2004 samanborið við 181 milljón á sama tímabili í fyrra og 477 milljónir á öllu árinu 2003.

Hagnaður Sparisjóðabankans á fyrri hluta þessa árs var næstum fjórfalt hærri en allt árið 2003. Markaðsaðstæður hafa verið bankanum afar hagstæðar það sem af er árinu, einkum á innlendum hlutabréfamarkaði. Þess er vart að vænta að innlend hlutabréf haldi áfram að hækka í sama mæli og að undanförnu. Horfur í efnahagsmálum innanlands og erlendis eru almennt jákvæðar þó svo að mikil hækkun olíuverðs síðustu vikur og ótti við hryðjuverk kunni að setja eitthvað strik í reikninginn. Þess er því að vænta að afkoma bankans á árinu í heild verði betri en nokkru sinni fyrr. Það skal þó undirstrikað að rekstur hans og afkoma eru háð ýmsum ytri þáttum, svo sem efnahagsástandi innanlands og erlendis, þróun verðlags og gjaldmiðla og þróun á fjámálamörkuðum.