Hagnaður Sparisjóðs Vestfirðinga nam 800,6 milljónum  kóna á árinu 2006, samanborið við 212,6 milljónir króna hagnað á árinu 2005. Hagnaður hefur því rúmlega þrefaldast á milli ára.  Arðsemi eigin fjár á árinu 2006 var 80,2% en hún var 27,7% árið áður samkvæmt tilkynningu Sparisjóðsins til Kauphallarinnar.

Vaxtatekjur námu alls 905,5 milljónum króna á árinu 2006 og hækkuðu um 16,3% frá árinu áður. Vaxtagjöld námu 742,7 milljónum króna og hækkuðu þau um 46,7% frá fyrra ári. Hreinar vaxtatekjur sparisjóðsins námu 162,8 milljónum króna  en þær voru 272,4 milljónir  á síðasta ári. Aðrar rekstrartekjur voru 1.069,5 milljónir og hækkuðu um 508,9 milljónir frá árinu 2005. Hreinar rekstrartekjur námu 1.232,3 milljónum króna  en þær námu 833,0 milljónum árið áður.


Rekstrargjöld sparisjóðsins námu 392,3 milljónum en námu 355,1 milljónum á árinu 2005. Framlag í afskriftarreikning útlána nam 232,7,4 milljónum en var 221,4 milljónir á árinu 2005. Útlán sparisjóðsins námu 6.9 milljörðum og aukast um 993,9  milljónir frá árinu 2005 eða um 16,7%. Markaðsverðbréf og eignarhlutir í félögum námu 2,1 milljónum kóna og hækka um 57,8% á milli ára. Eigið fé Sparisjóðs Vestfirðinga í árslok 2006 nam 1.805.2 milljónum og víkjandi lán námu 564 millljónum eða samtals 2.369,2 milljónum. Eiginfjárhlutfall samkvæmt CAD-reglum er 13,5% en það var 12,0% í árslok 2005.