Hagnaður Fasteignafélagsins Stoða nam ríflega einum milljarði króna á fyrstu sex mánuðum ársins samanborið við 40 milljóna króna hagnað á sama tímabili í fyrra. Það sem skýrir þessa miklu breytingu á hagnaði er breyting á uppgjörsaðferðum. Í stað þess að eignir félagsins flokkist sem fasteignir flokkast þær nú sem fjárfestingareignir og eru þær metnar á gangverði í samræmi við alþjóðlegan reikningsskilastaðal nr. 40. Breytingar á matinu eru færðar í rekstrarreikning undir liðnum matsbreyting fjárfestingaeigna sem nam 1.214 milljónum króna og skýrir eins og áður segir þennan mikla mismun á hagnaði milli ára.

Matið var gert í fyrsta sinn miðað við 1. janúar 2004 og samkvæmt niðurstöðum þess er gangverð eignanna 2.648 milljónum króna hærra en upphaflegt kostnaðarverð þeirra en fjárfestingaeignir eru ekki afskrifaðar. Hækkunin að frádreginni tekjuskattsskuldbindingu er færð á óráðstafað eigið fé 1. janúar 2004.

Heildareignir félagsins í lok júní námu rúmum 40 milljörðum króna samanborið við 35 milljarða í árslok 2003 og hafa því hækkað um rúma 5 milljarða króna.