Hagnaður ráðningarþjónustunnar Hagvangs ehf. var 23,4 milljónir króna fyrir árið 2020 en var 7,2 milljónir árið áður. Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins.

Velta félagsins á árinu lækkaði í 157 milljónir árið 2020 úr 175 milljónum árið 2019. Þá lækkaði aftur á móti rekstrarkostnaður félagsins um 38 milljónir á árinu. Þar af lækkaði launa- og starfsmannakostnaður, stærsti kostnaðarliðurinn, um 25% og húsnæðiskostnaður um 36%.

Eignir félagsins námu 55 milljónum í lok árs 2020 en þær voru 38 milljónir árið 2019. Þá var eigið fé félagsins 33 milljónir í árslok og eiginfjárhlutfall félagsins því 60%.

Félagið greiddi arð fyrir 10 milljónir króna á árinu og var handbært fé í lok tímabils 32 milljónir.

Eigendur Hagvangs eru Katrín S. Ólafsdóttir, sem er einnig framkvæmdastjóri, með 51% hlut, Sverrir Briem með 33% hlut og Geirlaug Jóhannsdóttir með 16% hlut.