Dr. Axel Leijonhufvud, er prófessor emeritus við University of California, Los Angeles (UCLA) og Háskólann í Trento, Ítalíu. Hann heldur fyrirlestur í Háskóla Íslands á fimmtudag um efnahagskreppuna og kreppu hagvísindanna.

Axel Leijonhufvud vakti fyrst athygli á sjöunda áratug síðustu aldar þegar hann tefldi túlkun sinni á kenningum John Maynard Keynes fram gegn viðtekinni túlkun og aðferðarfræði hinna svonefndu Keynesista og nýklassíska skólans sem átti eftir að hafa mikil áhrif á viðhorf til hagstjórnar og peningamála. Rannsóknir Axels hafa beinst að því hvernig markaðir miðla og bregðast við upplýsingum og getu markaðskerfisins til að viðhalda stöðugleika.

Axel setti á laggirnar stofnun um rannsóknir á áhrifum upplýsinga og úrvinnslu þeirra á markaði (Center for Computable Economics) við UCLA og sumarskóla um rannsóknir á þessu sviði við háskólann í Trento. Hann hefur tekið virkan þátt í fundum og ráðstefnum Institute for New Economic Thinking, sem stofnað var af George Soros til þess að leiða saman hagfræðinga til umræðu um það sem miður hefur farið í hagstjórn og stjórn peningamála.

VB Sjónvarp ræddi við Axel.