Leiðandi hagvísir Analytica (e. composite leading indicator) lækkaði um 0,1% í apríl, en það er fyrsta lækkun hans í átta mánuði. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Þar segir að lækkun hagvísisins nú skýrist að mestu af fækkun í komum ferðamanna í apríl og lækkun á væntingavísitölu gagnvart langtímaleitni. Átt er við fækkun milli apríl og mars samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands, sem hafa verið árstíðarleiðréttar. Analytica tekur fram að of snemmt sé þó að draga stórar ályktanir af fækkun ferðamanna þennan eina mánuð.

„Áfram eru sterkar vísbendingar um vöxt innlendrar eftirspurnar. Má þar benda á aukinn innflutning og kortaveltu. Óróleiki á vinnumarkaði kann að vera meðal þess sem dregur úr væntingum og hafi áhrif á komur ferðamanna. Auk óvissu á vinnumarkaði hérlendis þá eru áfram áhættuþættir í ytra umhverfi sem ógnað gætu hagvexti einkum tengdir stöðunni í alþjóðastjórnmálum,“ segir í tilkynningunni.

Hagvísirinn er vísitala sem gefur vísbendingu um efnahagsumsvif að sex mánuðum liðnum. Það er hlutverk vísitölunnar að veita skýra sýn á efnahagshorfur og vara tímanlega við viðsnúningi í efnahagsumsvifum. Vísitalan er reiknuð á grundvelli sömu aðferðafræði og annars staðar þar sem sambærilegar vísitölur eru reiknaðar en sérstaklega er tekið mið af verklagi OECD.