Leiðandi hagvísir Analytica hækkaði í febrúar en um er að ræða hækkun fimmta mánuðinn í röð. Miðað við að hagvísirinn hafi forspárgildi um vendipunkta um sex til níu mánuði virðast nú sterkar líkur á viðsnúningi í átt að efnahagsbata á öðrum eða þriðja fjórðungi ársins.

Tölur síðustu mánaða hafa verið endurskoðaðar uppávið. Miðað við fyrirliggjandi aðferðafræði er viðsnúningur hagvísisins í september nú staðfestur og jákvæð túlkun nú því afdráttarlausari en áður.

Leiðandi hagvísirinn er er samansettur úr sex undirþáttum af mismunandi toga. Um er að ræða aflamagn, debetkortaveltu, ferðamannafjölda, heimsvísitölu hlutabréfa, innflutning og væntingavísitölu Gallup. Fimm af sex undirliðum hækka frá í janúar en stærsta framlag til hækkunar er vegna hækkunar væntingavísitölu Gallup og vísitölu aflamagns. Langtímauppleitni mikilvægra undirþátta hefur verið sterk en í bráð hefur langtímaleitnin minna að segja.

Þrátt fyrir sterkar jákvæðar vísbendingar þá er ennþá sérstök óvissa tengd ferðaþjónustu, mögulegum tímasetningum bólusetninga vegna COVID-19 farsóttarinnar og framgangi hennar erlendis.

Hugmyndin að baki vísitölunni, sem hefur verið birt mánaðarlega síðan vorið 2013, er sú að framleiðsla hefur aðdraganda. Vísitalan er reiknuð á grundvelli þátta sem mælast í upphafi framleiðsluferilsins og/eða veita vísbendingar um eftirspurn eftir vörum og þjónustu. Til að unnt sé að auka framleiðslu þarf t.d. að afla aðfanga og stofna til fjárfestinga.