Hagvöxtur í Kína mældist 7,3% á þriðja ársfjórðungi og er 0,2% minni en á sama tíma á síðasta ári. Kínversk stjórnvöld hafa að undanförnu efnt til aðgerða til þess að blása lífi í kínverskt efnahagslíf, meðal annars með því að lækka skatta og eiginfjárkröfur lánveitenda.

Hagvöxturinn hefur hins vegar ekki verið hægari frá árinu 2008 þegar alþjóðlega fjármálakrísan dundi á alþjóðamörkuðum. Sérfræðingar spá því jafnframt að kínversk stjórnvöld muni ekki ná markmiði sínu um 7,5% hagvöxt á þessu ári. Þó er talið hugsanlegt að stjórnvöld muni efna til frekari aðgerða til þess að auka hagvöxt, til dæmis með því að auka einkaneyslu almennings og með fjárveitingum til stærstu banka landsins.