Hagvöxtur í Danmörku á 2. ársfjórðungi mældist 4,3% á ársgrundvelli og hefur ekki verið meiri í 10 ár. Vöxtur milli 1. og 2. ársfjórðungs var 1,6%, en markaðsaðilar höfðu búist við 0,7% vexti milli fjórðunga og 2,1% hagvexti á ársgrundvelli.

Í Hálffimm fréttum KB banka kemur fram að þetta óvænta stökk í hagvexti kemur til af mikilli aukningu í einkaneyslu. Einnig er verðmæti útflutningsvara meira en verið hefur, að hluta til vegna hærra olíuverðs. Útflutningur er 40% af hagkerfi Danmerkur og er landið þriðji stærsti útflutningsaðili olíu í Evrópu. Útflutningur jókst um 11,3% miðað við sama tímabil í fyrra og var afgangur á viðskiptum við útlönd um 180 milljarðar króna á 2. ársfjórðungi, sem er töluvert hærra en á 1. ársfjórðungi þegar afgangurinn var 80 milljarðar segir í Hálffimm fréttum KB banka.