Kínverska hagkerfið virðist vera að ná sér aftur á strik ef marka má opinberar tölur en samkvæmt þeim óx landsframleiðsla um 5,3% á fyrstu þremur mánuðum ársins. Sérfræðingar höfðu upphaflega gert ráð fyrir 4,6% vexti á ársfjórðungnum.

Stjórnvöld í Kína tilkynntu í síðasta mánuði 5% vaxtarmarkmið fyrir árið. Það markmið gæti talist fullt bjartsýnt í ljósi þess að heildsala í landinu á fyrsta ársfjórðungi dróst saman um 3,1%.

„Þú getur ekki vaxið að eilífu þannig við þurfum virkilega að sjá hvort það verði heimilin sem taka þátt í þessari veislu sem kínversk stjórnvöld eru að boða til um 5% vöxt,“ segir Harry Murphy Cruise hjá Moody‘s Analytics í samtali við BBC.

Fasteignafjárfesting í Kína dróst einnig saman á tímabilinu um 9,5%, sem undirstrikar þær áskoranir sem kínversk fasteignafyrirtæki standa frammi fyrir. Almenningur í Kína hefur lengi notað fasteignamarkaðinn sem fjárfestingartól og samkvæmt AGS samsvarar markaðurinn um 20% af hagkerfi Kína.

Íbúðaverð í Kína hefur heldur ekki verið jafn lágt í átta ár og hafa helstu fasteignarisar á borð við Evergrande, Country Garden og Shimao annaðhvort verið teknir til gjaldþrotaskipta eða slitabeiðni af dómstólum í Hong Kong.

Í síðustu viku lækkaði lánshæfismatsfyrirtækið Fitch horfur sínar fyrir Kína með vísun til aukinnar áhættu fyrir fjárhag landsins vegna efnahagslegra áskorana.

Kínverska hagkerfið hefur í áratugi stækkað með ofsahraða og samkvæmt opinberum tölum hafði landsframleiðsla í landinu verið í kringum 10% á hverju ári í mörg ár. Síðan þá hefur atvinnulausi aukist og hafa útgjöld heimilanna ekki verið jafn mikil og stjórnvöld höfðu vonast eftir heimsfaraldur.

Stjórnvöld hafa þó tekið nokkur skref til að efla útgjöld, til dæmis með lækkun vaxta og áætlun sem býður fólki afslátt á nýjum heimilistækjum ef það skilar inn gamla tækinu og eins fyrir bíla. Hagfræðingar segja þó að þörf sé enn meiri stuðning, sérstaklega ef Kína vill draga úr hættu á viðvarandi verðhjöðnun og stanslausum áhyggjum erlendra fjárfesta.