Hanna Birna Kristjánsdóttir, fv. borgarstjóri, er með nokkuð örugga forystu í 1. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins þegar talin hafa verið tæplega 2.600 atkvæði, eða um þriðjungur allra atkvæða. Hanna Birna er með 1.975 atkvæði í 1. sæti listans eða um 76,5% greiddra atkvæða.

Illugi Gunnarsson, þingflokksformaður, er í öðru sæti listans en samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er hann með um 450 atkvæði í 1. sæti listans, eða um 17% atkvæða. Hann sóttist eftir 1. sæti á listanum.

Þá hefur Brynjar Níelsson, hrl. og fv. formaður Lögmannafélags Íslands, fengið mjög góða kosningu í 3. Sæti á listann, en hann er að bjóða sig fram í fyrsta sinn, sóttist eftir þriðja sæti kemst þannig yfir þrjá sitjandi þingmenn.

Kristín Edwald, formaður yfirkjörstjórnar Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, las upp fyrstu tölur í prófkjöri flokksins í Valhöll núna rétt í þessu.

Þegar talin hafa verið 2580 atkvæði er röð efstu frambjóðenda þessi:

  1. Hanna Birna Kristjánsdóttir - 1975 atkvæði í 1. sæti
  2. Illugi Gunnarsson - 979 atkvæði í 1. - 2. sæti
  3. Brynjar Níelsson - 1050 atkvæði í 1. - 3. sæti
  4. Pétur H. Blöndal - 1415 atkvæði í 1. - 4. sæti
  5. Guðlaugur Þór Þórðarson - 1223 atkvæði í 1. - 5. sæti
  6. Birgir Ármannsson - 1160 atkvæð í 1. - 6. sæti
  7. Sigríður Á. Andersen - 1407 atkvæði í 1. - 7. sæti
  8. Áslaug María Friðriksdóttir - 1578 atkvæði í 1. - 8. sæti
  9. Elínbjörg Magnúsdóttir - 1032 atkvæði
  10. Ingibjörg Óðinsdóttir - 1006 atkvæði

Aðrir frambjóðendur hafa  hlotið færri atkvæði