Engin ríkisstjórn í manna minnum hefur haft jafn lítið fylgi og sitjandi ríkisstjórn vinstri flokkanna. Það gefur auga leið að hún er kolfallin, að mati Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar háskólaprófessors. „Ég er hins vegar ekki viss um að ósigur hennar sé sigur einhverra annarra. Hún hefur tapað en hver hefur unnið? Það á eftir að koma í ljós. Það eina sem ég er viss um er að eftir kosningar munu þessir tveir stjórn­arflokkar tapa fylgi.“

Telur þú ekki að kjör nýs formanns hjá Samfylkingunni muni breyta ásýnd flokksins?

„Það getur gert það að einhverju leyti en fólk mun samt ekki gleyma því í bráð hvernig þessir tveir flokk­ar hafa hagað sér á kjörtímabilinu,“ segir Hannes.

„Þessir tveir flokkar ætluðu sér að læsa íslensku þjóðina inni í skulda­fangelsi með Icesave­samningunum. Og hvað getur verið eftirsóknarvert við það að læsa þjóðina inni í þann­ig skuldafangelsi? Jú, ef þú ert sjálfur fangelsisstjóri. Þá má spyrja sig hvað þessu fólki gekk til með því að gera svona samninga, sérstaklega þann fyrsta. Ég kasta þeirri tilgátu fram að það hafi verið gert til þess að festa reikning utan um hálsinn á Sjálf­stæðisflokknum og segja síðan: þetta kostaði Sjálfstæðisflokkurinn þjóð­ina. Síðan hafi hugmyndin verið að semja í framhaldinu um skuldirnar með því að ganga í Evrópusamband­ið. Ég sé ekki önnur rök fyrir þeirri hegðun sem við sáum til stjórnvalda á þessum tíma.“

Rætt er við Hannes í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu sem kom út í síðustu viku. Áskrifendur geta nálgast blaðið í heild hér að ofan um liðnum tölublöð.