*

mánudagur, 2. ágúst 2021
Innlent 6. desember 2007 18:29

Hannes Smárason minnkar hlut sinn í FL Group í 15,96%

gengið frá samkomulagi um beitingu atkvæðisréttar á milli Oddaflugs og Materia Invest

Ritstjórn

Oddaflug ehf, félag í eigu Hannesar Smárasonar, gekk í dag frá sölu á hluta af eign sinni í FL Group og minnkar eignarhald félagsins við það úr 20,7% í 15,96%, að því er fram kemur í fréttatilkynningu.

Viðskiptin eru gerð á genginu 16,1 en fyrstu kaup Oddaflugs í Flugleiðum hf., forvera FL Group, voru gerð á genginu 7. Salan er gerð til að auka rými til nýrra fjárfestinga en nú í vikunni var meðal annars tilkynnt fyrirætlun um aðkomu félags á vegum Hannesar í tengslum við Geysi Green Energy, segir í fréttatilkynningunni.

 Í dag var einnig gengið frá samkomulagi um beitingu atkvæðisréttar í FL Group á milli Oddaflugs og Materia Invest, sem er hlutafélag í eigu Magnúsar Ármann, Þorsteins M. Jónssonar og Kevin Stanford. Með 9,23% eignarhlut Materia Invest er sameiginlegt atkvæðamagn félaganna 25,13%.

"Þetta er framhald þeirra breytinga sem kynntar hafa verið í eignarhaldi FL Group," segir  Hannes Smárason í fréttatilkynningunni. "Þegar hefur komið fram að ég hyggist beina kröftum mínum í auknum mæli að orkugeiranum og útrás hans samhliða því að taka sæti í stjórn FL Group og leggja þar mitt af mörkum til áframhaldandi uppbyggingar félagsins. Með samkomulaginu við Materia Invest er grunnur lagður að áframhaldandi samstarfi félaganna sem hefur verið afar traust á þessum vettvangi.“