Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, gefur lítið fyrir þá mynd sem dregin er upp af Margaret Thatcher, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, í nýjustu þáttaröð af The Crown, sem sýnd er á Netflix. Hannes segir birtingarmyndina skopstælingu á Thatcher.

Í grein sem Hannes skrifar í The Conservative rekur hann persónuleg kynni sín af Thatcher. Hann hafi hitt hana nokkrum sinnum í stærri boðum en tvívegis haft af henni nánari kynni árið 2002. Í síðari skiptið hafi það verið í fremur fámennu kvöldverðarboði í tengslum við Bastiat blaðamannaverðlaunin. Þar hafi Thatcher lýst yfir velþóknun sinni á að Ísland væri ekki hluti af Evrópusambandinu. Þá hefðu stjórnmálamenn á meginlandinu og embættismenn í Brussel aldrei fyllilega skilið breskan þankagang.

Sjá einnig: Hannes: Thatcher var einörð, hyggin og hagsýn

Sú Thatcher sem Hannes hafi kynnst hafi verið ráðrík og virðuleg án þess að vera hrokafull. Hún hafi ekki verið óbilgjarn harðstjóri eins og megi skilja á túlkun Gillian Anderson á henni í The Crown. Þá sé ekki síðri skopstæling dregin upp af stefnumálum Thatcher í þáttunum. Ekki sé komið inn á að keynesísk efnahagsstefna sem byggði á fullu atvinnustigi sama hvað það kostaði hafi borið skipbrot áður en Thatcher tók við árið 1979. Tímabundið atvinnuleysi hafi verið fylgifiskur þess að koma þurfti jafnvægi á ríkisfjármálin og peningamálin.

Undir stjórn Thatcher hafi Bretland orðið kraftmikið og sveigjanlegt hagkerfi. Þar var lagður grunnur að nær stöðugum hagvexti frá árinu 1982 og fram til ársins 2008. Á því tímabili hafi Bretland vaxið hraðar en Frakkland og Þýskaland og Bandaríkin.