Nýr Hard Rock veitingastaður verður opnaður í Lækjargötu í haust í húsnæðinu sem áður hýsti Iðu. Í tilkynningu kemur fram að hönnun staðarins verði í samræmi við nýtt og endurhannað útlit Hard Rock staðanna og því talsvert frábrugðið því sem fólk á að venjast á Hard Rock. Reykjavík verður ein fyrsta borgin til að taka upp þetta nýja útlit. Í tilkynningunni er haft eftir Birgi Bieltvedt, eins eigendannna, að markmiðið sé að staðurinn verði með flottari Hard Rock stöðum í heiminum.

Hard Rock í Lækjargötu verður á þremur hæðum á um 1.000 fermetrum og mun geta tekið við 250 gestum, en staðurinn er að opna hér á landi eftir 11 ára hlé. Hard Rock opnaði fyrst hér árið 1987 í Kringlunni og naut mikilla vinsælda.

Hönnun staðarins hefur verið í höndum THG arkitekta. Um 100 manns hafa komið að framkvæmdunum og en staðurinn mun veita allt að 80 manns vinnu þegar hann opnar í haust. Ekki liggur endanlega fyrir hvenær staðurinn opnar, að því er kemur fram í tilkynningunni, en lagt er allt kapp á að opna hann fyrir Airwaves-hátíðina í nóvember þar sem búið er að ganga frá því að hluti af dagskrá hátíðarinnar verði í kjallara Hard Rock.

Eigendur Hard Rock á Íslandi eru Eyja fjárfestingarfélag, sem er í eigu Birgis Bieltvedt og Eyglóar Bjarkar Kjartansdóttur, ásamt Högna Sigurðssyni sem leitt hefur hópinn sem stendur að komu Hard Rock hingað til lands. Eyja fjárfestingarfélag er hluthafi í Domino‘s á Íslandi, Joe & the Juice, Snaps, Jómfrúarinnar og Gló.