Neytendasamtökin hafa sent frá sér tilkynningu þar sem þau segjast harma að hugmyndir Bjarna Benediktssonar um afnám á tollum nái ekki til tolla á matvörur.

Bjarni, sem er formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra, boðaði afnám allra tolla að tollum á matvöru undanskildum þann 1. janúar 2017. Einhverjir hafa sjálfsagt glaðst yfir því að hafa séð á vef Sjálfstæðisflokksins fyrirsögn um að Bjarni boði afnám allra tolla. Svo er þó ekki líkt og kom fram í frétt flokksins og Neytendasamtökin eru á því að hann sé að sleppa þeim tolli sem er í raun mikilvægastur fyrir heimilin.

„Neytendasamtökin harma að ekki sé um leið afnumdir tollar á öllum matvörum. Ef bæta á stöðu heimilanna með afnámi tolla er það best gert með afnámi tolla á matvörur. Neytendasamtökin ítreka því að löngu er tímabært að allir tollar verði lagðir af á heimilisvörum,“ segir í tilkynningu samtakanna.

Bæta þau við að mikilvægt sé að stjórnvöld tryggi að eftirlit verði varðandi afnám tolla svo tryggt sé að aðgerðin skili sér til neytenda.