Með kaupum dönsku málningarverksmiðjunnar Flügger A/S á hinni íslensku Hörpu Sjöfn hf. er orðið til nýtt fyrirtæki á íslenskum málningarvörumarkaði, Flügger litir. "Flügger og Harpa, síðar Harpa Sjöfn, hafa um langt árabil átt í farsælu samstarfi. Með sölu á framleiðsluvörum Flügger á síðustu árum hefur Harpa Sjöfn tryggt að vörumerkið Flügger hefur náð sterkri stöðu á meðal fagmanna og neytenda á íslenskum málningarvörumarkaði," segir í tilkynningu félagsins.

Náin samvinna fyrirtækjanna þróaðist með þeim hætti, að í desember á síðasta ári keypti Flügger öll hlutabréf í Hörpu Sjöfn. Markmið kaupanna var að efla starfsemi Hörpu Sjafnar, jafnframt því að innleiða nýjungar og auka vöruúrval, ekki síst til að mæta þörfum fagmanna og verktaka.
Að baki hinu nýja sameinaða fyrirtæki er meira en 200 ára saga þróunar og framleiðslu á málningarvörum í hæsta gæðaflokki. Flügger opnaði fyrstu verslun sína í Kaupmannahöfn árið 1890. Fyrirtækið rekur í dag um 400 verslanir í Danmörku, Noregi, Svíþjóð, Póllandi og Kína og nú einnig á Íslandi.

Sögu Málningarverksmiðjunnar Hörpu má rekja allt aftur til ársins 1936. Efnaverksmiðjan Sjöfn, sem upphaflega var stofnuð um framleiðslu á sápum og hreinlætisvörum árið 1932, hóf framleiðslu á málningu aldarfjórðungi síðar. Fyrirtækin Harpa og Sjöfn sameinuðust síðan árið 2001.
Framleiðsla á þekktustu vörum Hörpu Sjafnar heldur áfram og þær verða seldar undir sínum gömlu nöfnum. Tryggir viðskiptavinir til margra áratuga þurfa því ekki að óttast að finna ekki lengur ?málninguna sína" þótt fyrirtækið skipti um nafn.

Flügger litir hafa það að markmiði að vera fremstir meðal jafningja. Þar leikur áratugalöng reynsla Hörpu Sjafnar af íslenskum aðstæðum lykilhlutverk. Þróun íslenskrar málningar og málningarefna er meginástæðan fyrir forystuhlutverki fyrirtækisins hér á landi. Með einvalaliði fagfólks eru forsendur til að gera betur og tryggja sess fyrirtækisins enn frekar.