Harpa tónlistar- og ráðstefnuhús hefur verið tilnefnt til LEAF verðlaunanna í flokknum opinberar byggingar ársins – menning. LEAF (e. Leading European Architects Forum) eru alþjóðleg samtök arkitekta sem starfa í Evrópu, stofnuð árið 2001 og veita samtökin verðlaun á hverju ári þeim arkitektum sem hafa nýjungar og framsækni að leiðarljósi í hönnun sinni. Verðlaunaðar eru byggingar þar sem hönnunin markar þáttaskil í byggingarlist komandi kynslóða.

Alls eru 5 opinberar byggingar tilnefndar í þessum flokki þar á meðal sjávarsafnið Blue Planet Aquarium í Kaupmannahöfn, risagarðhýsin Gardens by the bay í Singapore og margmiðlunar safnið Médiathèque Mont de Marsan í París. Verðlaunaathöfnin fer fram í London 20. september. Fjórar byggingar af þessum fimm tilnefndu eiga það sameiginlegt að hönnun þeirra er að miklu leyti unnin úr gleri.

Harpa er einnig tilnefnd til verðlaunanna WAN Performing Spaces Awards. WAN verðlaunin eru í eigu vefritsins WorldArcitectureNews.com og eru mjög umsvifamikil alþjóðleg arkitektaverðlaun. Alls voru innsendar tilnefningar 1.379, frá 72 löndum og 317 arkitektar dæmdu. Harpa er þar tilnefnd í flokknum Framhlið/Ásýnd ársins 2013. Harpa er þar í flokki yfir 40 bygginga sem keppa um titilinn.