*

miðvikudagur, 26. janúar 2022
Erlent 25. nóvember 2021 14:13

Hatar svarta föstudaga

Norskir kaupmenn hafa minni áhuga á að taka þátt í svörtum föstudegi en áður og einn þeirra segist ekki þola daginn.

Ritstjórn
Kaupmenn í Noregi hafa minni áhuga á svörtum föstudegi en áður.
Haraldur Guðjónsson

Sitt sýnist hverjum um tilboðsdaga nóvembermánaðar á borð við makalausadaginn 11. nóvember, svartan föstudag, sem fer fram á morgun og stafrænan mánudag, sem fylgir í kjölfarið og haldinn verður á mánudaginn næstkomandi. Íslendingar eru margir hverjir farnir að nýta tækifærið og gera snemmbúin jólagjafainnkaup. 

Nágrannar okkar Norðmenn virðist hins vegar hafa minni áhuga á svörtum föstudegi en áður. Þar í landi er búist við að verslunum sem bjóða tilboð á svörtum föstudegi fækki á milli ára og veltan verði því heldur minni á morgun en var fyrir nokkrum árum að því er fram kemur í umfjöllun norska viðskiptamiðilsins e24.no. 

Sóun sem kaupmenn hafi lítið upp úr

Thomas Heyerdahl, framkvæmdastjóri Gullsmed Heyerdahl í Osló, telur svartan föstudag ganga gegn öllu því sem fyrirtækið standi fyrir. „Ég hata svartan föstudag,“ er haft eftir Heyerdahl á vef e24.

Tilboðsdagar ýta undir sóun að mati Heyerdahl. Fólk kaupi vörur af því að þær séu á lágu verði sem það hafi oft lítil not fyrir . Svartur föstudagur hafi upphaflega verið hugsaðir til að klára afgangsvörur af lager til að koma fyrir nýjum vörum. Í dag séu kaupmenn farnir að kaupa sérstaklega inn vörur fyrir svartan föstudag.

Þá sé ómögulegt að veita góða þjónustu þegar of mikil umferð sé í verslunum. Auk þess hafi sýnt sig að kaupmenn fái oft lítið upp úr deginum. Þó velta aukist þá bætist við kostnaður á móti með fjölgun starfsmanna og kostnaði við markaðssetningu. 

Leggur til grænan, bleikan eða appelsínugulan föstudag

Heyerdahl ætlar þó ekki að láta daginn algjörlega framhjá sér fara og mun halda grænan föstudag í þágu umhverfismála. Þá stingur hann upp á því að kaupmenn geti einnig haldið appelsínugulan föstudag og gefið hluta af sölunni til að styrkja fátæka eða bleikan föstudag og stutt um leið baráttuna gegn krabbameini.