Samkvæmt áætlun Greiningar Glitnis hefur niðurskurður kvótans í 130 þúsund tonn í för með sér 16 milljarða  samdrátt útflutningstekna á næsta fiskveiðiári samanborið við yfirstandandi fiskveiðiár og tæplega 0,7% samdrátt landsframleiðslu, þar af 0,2% samdrátt á þessu ári. Áhrifin gætu þó verið minni.

Sjávarútvegsráðherra hefur tekið ákvörðun um að hverfa frá 25% aflareglu í þorski og að þorskkvóti á næsta fiskveiðiári verði 130 þúsund tonn í samræmi við ráðleggingar Hafrannsóknastofnunar. Er það þriðjungs niðurskurður kvótans frá yfirstandandi fiskveiðiári en kvótinn er nú 193 þúsund tonn.

Forsætisráðherra kynnti ákvörðun sjávarútvegsráðherra um aflaheimildir á blaðamannafundi í dag ásamt mótvægisaðgerðum ríkisins. Nokkur viðbrögð voru við tíðindunum á fjármálamarkaði og lækkaði gengi krónunnar m.a. nokkuð segir í Morgunkorni Glitnis.