Heildarskuldir og skuldbindingar sveitarfélaga á höfuðborgsvæðinu og Suðurnesjum nema tæplega 417 milljörðum króna. Þar af eru skuldir sem hvíla á sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu tæplega 380 milljarðar. Reykjavíkurborg vegurþar langsamlega þyngst en skuldir hennar og skuldbindingar nema samtals 325 milljörðum króna. Þar af eru skammtímaskuldir rúmlega 44 milljarðar. Staða Orkuveitu Reykjavíkur (OR) hefur mikil áhrif á stöðu borgarinnar. Skuldir hennar nema um 230 milljörðum, sem skýrist öðru fremur af gengisfallinu. Næstum allar skuldir OR eru í erlendri mynt en aðeins um 20 til 25% tekna. Því hefur gengisfall krónunnar haft alvarleg áhrif á eiginfjárhlutfall OR, og þar með Reykjavíkurborgar. Viðskiptablaðið fjallaði í liðinni viku um skuldir allra sveitarfélaga landsins. Upplýsingarnar sem þar komu fram, m.a. um skuldir á hvern íbúa, byggjast á tölum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga sem unnar eru upp úr fjárhagsáætlunum sveitarfélaga fyrir þetta ár. Meðaltalsskuldin á íbúa á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum er um 1,7 milljónir króna og munar þar mikið um skuldir Orkuveitu Reykjavíkur.