Kristín Soffía Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandic Startups, sem er í ítarlegu viðtali í nýjasta tímariti Frjálsrar verslunar, segir að ástríða hennar fyrir umhverfismálum sé órjúfanlegur hluti af henni sjálfri. Hún hafi fyrst áttað sig á því að hún vildi leggja stund á nám sem væri nátengt umhverfismálum þegar hún var á ferðalagi um Bangladess eftir útskrift úr framhaldsskóla.

„Eftir útskriftina vissi ég, líkt og svo margir, ekki alveg hvað mig langaði til þess að taka mér næst fyrir hendur. Það fór því svo að ég ákvað að ferðast meðan ég íhugaði næstu skref og ferðaðist m.a. um Bangladess. Þar stendur þjóðin frammi fyrir þeim vanda að það er mikið arsenik í grunnvatninu. Á ferðalaginu kynntist ég ungum lífefnafræðingum sem voru einmitt að hreinsa arsenik úr grunnvatninu með því að byggja rauðamölsturna. Þetta fannst mér ótrúlega heillandi og hringdi því fljótlega heim til Íslands í pabba og bað hann um að skrá mig í lífefnafræði í Háskóla Íslands. Ég kláraði eitt ár í lífefnafræðinni en fann mig ekki alveg þar og færði mig því yfir í umhverfisverkfræðina."

Hún segir að í daglegri umræðu um umhverfismál sé þeim oft ruglað saman við náttúruvernd, en þetta séu í rauninni tveir mismunandi hlutir. „Í umhverfismálum heillast ég mest af praktískum úrlausnarmálum á borð við sorpvinnslu, orkuvinnslu, veitukerfi og samgöngur, sem er kannski eitthvað sem fólk hugsar ekki fyrst til er umhverfismál bera á góma. Þetta eru stærstu úrlausnarefnin þegar kemur að umhverfismálum, sérstaklega í þéttbýli."

Hún sé því mjög heilluð af hugmyndafræði  hringrásarhagkerfisins. „Það er mikilvægt að við sættum okkur við það að við flest viljum eiga síma, kaupa föt, fara til útlanda o.s.frv. Því höfðar þessi lausn um að allir hætti því og geri nánast ekki neitt, til fárra. Ég tel því mikilvægt að hugað sé að því hvernig sé hægt að gera þessa þætti sjálfbæra, þannig að við séum ekki að ganga á auðlindir til framtíðar. Þar kemur nýsköpun inn; við þurfum að finna nýjar sjálfbærari leiðir til þess að gera allt sem við höfum verið að gera hingað til."

Hjálpa frumkvöðlum að láta drauma rætast

Kristín Soffía segir aðspurð að helsta hlutverk Icelandic Startups sé að aðstoða frumkvöðla við að láta drauma sína rætast. Þá sé eitt af helstu markmiðum fyrirtækisins að stuðla að því að hér á landi spretti upp ný fyrirtæki og ný störf, til þess að stuðla að auknum hagvexti.

„Icelandic Startups er stærsti einkarekni stuðningsaðili fyrir frumkvöðla og sprotafyrirtæki á Íslandi og er í eigu Origo, Samtaka iðnaðarins, Háskólans í Reykjavík, Háskóla Íslands og Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins. Eigendahópurinn er því fjölbreyttur og með ólíkar væntingar og sýn á starfsemina. Það endurspeglast svo í því hvernig við störfum. Þetta er fjölbreytt fyrirtæki sem gegnir mjög samfélagslega mikilvægu hlutverki; að hjálpa frumkvöðlum að stíga sín fyrstu skref og miðla reynslu og upplýsingum til þeirra. Auk þess erum við að gefa fyrirtækjum og einstaklingum tækifæri til þess að enduruppgötva sjálfa sig með því koma inn sem leiðbeinendur og/eða bakhjarlar."

Þá sé Icelandic Startups stöðugur og fastur punktur innan íslenska nýsköpunargeirans sem tengi saman ólíka aðila. „Við erum einnig með mjög virkt tengslanet erlendis, t.d. í gegnum samstarfsfyrirtæki á Norðurlöndunum og víðar. Við tökum einnig þátt í hröðlum vestanhafs og erum því mjög virk í að tengja íslenska nýsköpun við útlönd. Að sama skapi viljum við stuðla að því að erlend sprotafyrirtæki komi til Íslands. Við sækjum ráðstefnur, tökum þátt í viðburðum og viðskiptasendinefndum á vegum hins opinbera til að efla viðskiptasambönd á sviði nýsköpunar við önnur lönd. Hlutverk Icelandic Startups er því mjög fjölbreytt."

Nánar er rætt við Kristínu Soffíu í tímariti Frjálsrar verslunar sem nýlega kom út. Hægt er að gerast áskrifandi hér eða kaupa blaðið hér .