Eimskip hefur ákveðið að hefja viðkomur með Ameríkuleið félagsins til Portland í Maine-ríki í stað Norfolk í Virginíu frá og með síðari hluta marsmánaðar í ár. Í tilkynningu frá félaginu segir að meginmarkmið breytingarinnar sé að stytta siglingartíma til og frá Bandaríkjunum og koma á reglubundnum hálfsmánaðarlegum siglingum.

Þar segir jafnframt að höfnin í Portland hafi orðið fyrir valinu þar sem hún fellur vel að siglingakerfi Eimskips og þörfum viðskiptavina félagsins. Hafnaraðstaðan þar hafi verið endurnýjuð mikið á síðustu árum. Á hafnarsvæðinu mun Eimskip reka vöruhús og skrifstofu, en jafnframt eru til staðar tenglar fyrir 150 frystigáma, 100 tonna gámakrani og önnur tæki sem þarf til að sinna þjónustu við viðskipavini félagsins.

Eimskip mun áfram taka við lausavörusendingum viðskiptavina sinna í gegnum Norfolk og New York ásamt því að opna nýja vörumóttöku í Portland.

Með tilkomu nýrrar hafnar í Portland verður flutningstími til Íslands framvegis níu dagar í stað 14 áður.