Í Hálffimm fréttum Kaupþings [ KAUP ] kemur fram að hlutabréf í Rio Tinto og helstu námafyrirtækjum hækkuðu hressilega í verði í dag eftir að greinendur hjá Lehman Brothers mátu svo að samkeppnisaðilinn BHP Billiton gæti greitt allt að 7.100 pens fyrir hvern hlut í Rio án þess að það myndi rýra verðmæti hluthafa BHP. Verðmatið er 44% hærra en sem nam lokagengi Rio í gær og mun hærra en heyrst hefur sem nýtt og endurbætt tilboð frá BHP.

Tvær vikur eru nú liðnar frá því að BHP gerði 8.300 milljarða króna tilboð í Rio Tinto. Eins og kunnugt er hafnaði stjórn Rio tilboðinu þar sem það tæki ekki mið af raunverulegu verðmæti félagsins og framtíðarmöguleikum þess.

Hlutabréf í námafélögum hækkuðu einnig í dag vegna orðróms um að Chinese State Mining Co. hyggist gera tilboð í Vedanta upp á 2.700 pens á hlut. Vedanta hækkaði um rúm 6%.

Námarisi verði myndaður .

Verði af samruna félaganna breytist námaiðnaðurinn um aldur og ævi. Sameinað félag yrði eitt af fimm stærstu fyrirtækjum í heimi, metið á 21 þúsund milljarða króna, og jafnframt það langstærsta í framleiðslu góðmálma. Til að mynda er samanlögð markaðshlutdeild BHP/Rio um 36% í framleiðslu járngrýtis og 17% í framleiðslu áls en Rio Tinto er eigandi Alcan á Íslandi, sagði í Hálffimm fréttum Kaupþings.