Niðurstaða rekstrarreiknings Heklu hf. fyrir tímabilið janúar til júní 2004 er hagnaður að fjárhæð 27 millj. kr. Tap félagsins á sama tímabili árið áður nam 8 millj. kr. Veltufé frá rekstri nam 128 millj. kr. á tímabilinu en á sama tímabili árið 2003 nam veltufé frá rekstri 4 millj. kr. Í lok júní var eigið fé Heklu hf. 1.121 millj. kr. og eiginfjárhlutfall 18% en í árslok 2003 var eigið fé félagsins 1.094 millj. kr. og eiginfjárhlutfall 19%. Mikil söluaukning í júní varð þess valdandi að viðskiptakröfur hækkuðu umtalsvert sem leiddi til lækkunar eiginfjárhlutfalls. Heildartekjur í júní 2004 námu 1.755 millj. kr. en í júní árið 2003 námu heildartekjur 934 millj. kr.

Arðsemi eigin fjár var á tímabilinu 5% en á sama tímabili árið áður var arðsemi eigin fjár neikvæð um 1%. Heildartekjur Heklu hf. námu á tímabilinu 6.666 millj. kr. Á sama tímabili árið 2003 námu heildartekjur Heklu hf. 4.554 millj. kr. Tekjuaukning á milli ára er því 46%.

Rekstrargjöld Heklu hf. námu 6.525 millj. kr. á tímabilinu janúar til júní 2004 og hækkuðu rekstrargjöld um 42% frá sama tímabili á árinu 2003 þegar þau námu 4.568 millj. kr.

Rekstrarhagnaður Heklu hf. fyrir afskriftir, fjármagnsgjöld og skatta nam 207 millj. kr. samanborið við 40 millj. kr. hagnað á tímabilinu janúar til júni 2003. Á tímabilinu janúar til júní árið 2004 voru fjármagnsliðir neikvæðir um 130 millj. kr. en fyrir sama tímabil árið 2003 voru fjármagnsliðir neikvæðir um 46 millj. kr. Áhrif fjármagnsliða á rekstur félagsins versnuðu því sem nemur 84 millj. kr.

Heildareignir Heklu hf. voru í lok júní 2004 bókfærðar á 6.372 millj. kr. samanborið við 5.664 millj. kr. í árslok 2003. Heildarskuldir Heklu hf. í lok júní 2004 námu 5.251 millj. kr. samanborið við 4.570 millj. kr. í árslok 2003. Skýrist breyting á niðurstöðutölum efnahagsreiknings einkum af hækkun viðskiptakrafna vegna mikillar sölu í júní eins og áður segir.

Veltufé frá rekstri fyrir tímabilið janúar til júni 2004 nam 128 millj. kr. Á sama tímabili árið áður nam veltufé frá rekstri 4 millj. kr.

Meðalfjöldi starfsmanna Heklu hf. á tímabilinu janúar til júní 2004 var 188 samanborið við 165 á sama tímabili árið 2003. Laun, launatengd gjöld og annar starfsmannakostnaður nam á tímabilinu janúar til júní 2004 alls 504 millj. kr.

Ytri skilyrði hérlendis munu sem fyrr ráða miklu um endanlega afkomu félagsins á árinu 2004. Aukin verðbólga og vaxtastig á árinu hefur haft töluverð neikvæð áhrif á fjármagnsliði félagsins og hagnaður því minni en annars hefði orðið. Það er þó mat stjórnenda Heklu hf. að bjart sé framundan í rekstri félagsins. Félagið hefur aukið hlutdeild sína og umfang á flestum sviðum auk þess sem fjárfestingar undanfarin ár hafa styrkt stoðir og innviði félagsins, sem sýnir sig í mestu veltu Heklu hf. á fyrri árshelmingi frá upphafi.