Helgi Eysteinsson hefur tekið við starfi framkvæmdastjóra Iceland Travel, dótturfyrirtækis Icelandair Group.

Ráðning Helga er liður í að efla ferðaþjónustustarfsemi innan félagsins með aukinni áherslu á fríferðir Íslendinga, samkvæmt tilkynningu frá Icelandair.

Jóhann Kristjánsson, sem verið hefur framkvæmdastjóri Iceland Travel, hefur jafnframt látið af störfum.

„Iceland Travel er leiðandi ferðaskrifstofa í móttöku á erlendum ferðamönnum og skipulagningu ráðstefna á Íslandi, en með ráðningu Helga nú og ráðningu Harðar Gunnarssonar sem stjórnarformanns Iceland Travel er mótuð sú stefna að auka vægi hóp- og afþreyingarferða fyrir Íslendinga til útlanda,“ segir í tilkynningunni.   Helgi Eysteinsson starfaði á árunum 2006-2008 hjá Glitni. Helgi var sölu- og markaðsstjóri hjá Ferðaskrifstofu Íslands á árunum 2004-2006 en fyrirtækið var í eigu Flugleiða/Icelandair Group fram í ársbyrjun 2006. Þar áður var hann við störf hjá Íslensku auglýsingastofunni og Glitni.

Helgi útskrifaðist sem viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands 1999. Helgi er í sambúð með Ásu Björgu Tryggvadóttur, viðskiptafræðingi, og þau eiga einn son.