Í viðtali við Helga Hjörvar, formann efnahags- og viðskiptanefndar, í Viðskiptablaðinu er umræðunni vikið að gjaldmiðlamálum. Blaðamaður bendir á að tvísýnt sé með vilja þjóðarinnar til að ganga í Evrópusambandið (ESB) en hvernig sem það svo fari sé langt í að evra verði tekin upp sem gjaldmiðill hér á landi. Á meðan sitji Íslendingar uppi með krónu í gjaldeyrishöftum. Því liggur beinast við að spyrja; Hvernig ætla menn að leysa þetta?

„Ég hef líkt krónunni við Berlínarmúrinn. Þegar það er róstursamt á erlendum mörkuðum eins og verið hefur undanfarið, þá er skjólgott á bakvið múrinn og margir finna skjól í höftunum,“ segir Helgi í viðtalinu.

„En líkt og með Berlínarmúrinn þá koma höftin í veg fyrir frjálsa verslun og frjáls viðskipti. Við vitum að grundvöllurinn fyrir litlar þjóðir til að vera sjálfstæðar er verslunar- og viðskiptafrelsi.“

Helgi segir að á meðan Íslendingar styðjist við krónuna þurfi að gera ákveðnar breytingar. Til dæmis þurfi að finna leiðir út úr verðtryggingaráhrifum og sjálfvirkum kerfisbreytingum hennar.

„Menn semja um 5% kauphækkun í kjarasamningum, síðan kemur í ljós að það er ekki innistæða fyrir þeim hækkunum og fyrirtækin velta því út í verðlagið,“ segir Helgi.

„Þá kemur ríkið og ríkisfyrirtæki og hækka gjaldskrár af því að verðlag er að hækka og loks bitnar þetta á heimilunum vegna verðbólgunnar og hækkunar lána sem kemur í kjölfarið. Þessa hringrás þarf að stöðva.“

Þá segir Helgi að mesta ógnin í hagkerfinu sé að núverandi verðbólga verði viðvarandi. Enginn einn aðili í hagkerfinu geti tekist á við þann vanda. Helgi segist þó vera bjartsýnn á að hægt sé að taka upp evruna fyrr en búast mætti við.

„Í aðildarsamningum Íslands þarf ESB að bjóða upp á tvennt; annars vegar full yfirráð yfir auðlindum okkar og hins vegar lausn á gjaldeyrisvanda þjóðarinnar sem er einstæður í Evrópu,“ segir Helgi.

„Það er mjög mikilvægt að leysa úr honum hratt og vel, því gjaldeyrishöftin koma í veg fyrir að fjórfrelsið sé ríkjandi á EES svæðinu. Það hlýtur því að vera sama forgangsverkefni fyrir Brussel eins og okkur, að eyða óeðlilegum viðskiptahindrunum. Ég er því bjartsýnn á að við komumst inn í myntsamstarfið EMR II mjög hratt eftir að viðræðum lýkur. Helsta ástæðan fyrir því að ganga inn í sambandið er að við losnum út úr þessum gjaldmiðli sem hvorki hefur skilað okkur stöðugleika né hæfilegu vaxtastigi. Ég hef von um að það gæti gerst á þremur mánuðum eftir að ákvörðun liggur fyrir, þá jafnvel um mitt næsta kjörtímabil. Þá værum við að tala um stöðugan og haftalausan gjaldmiðil hérna innan nokkurra ára“

Nú hefur verið nokkuð fjallað um mögulega upptöku Kanadadollars í samstarfi við Kanadamenn og vísbendingar verið uppi um að þeir séu jákvæðir fyrir viðræðum um slíkt. Ber okkur ekki skylda til að kanna slíka möguleika?

„Á ögurstundum þjóðar er mönnum skylt að kanna alla þá möguleika sem eru í boði. Þess vegna vil ég klára aðildarviðræður að ESB sem fyrst,“ segir Helgi.

„En ég er líka tilbúinn til að skoða aðra möguleika, það er allt skárra en íslenska krónan. Ein helsta ástæða þess að við þurfum að losna við krónuna er til að fella niður viðskiptahindranir. Þess vegna væri eðlilegast að taka upp þann gjaldmiðil sem við eigum mest viðskipti í. Það er einnig líklegra að hagsveifla okkar fylgi helstu viðskiptalöndum en alls óskyldu efnahagskerfi. En það má skoða allt. Það væri hrokafull afstaða að segja nei við hugmyndum fyrirfram.“