Helmingur fastra dómara við Hæstarétt hefur lýst sig vanhæfan til að dæma í máli Baldurs Guðlaugssonar vegna kunningskapar. Enginn hefur sagt sig frá málinu vegna tengsla við verjanda Baldurs. Var sagt frá þessu í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins .

Tólf fastir dómarar eru við Hæstarétt, en þau Jón Steinar Gunnlaugsson, Árni Kolbeinsson, Eiríkur Tómasson, Ingibjörg Benediktsdóttir, Markús Sigurbjörnsson og Þorgeir Örlygsson hafa sagt sig frá málinu. Hverjum þeirra er í sjálfsvald sett hvort þeir telja sig vanhæfa til að dæma í einstökum málum vegna kunningsskapar eða tengsla við sakborninga. Segir í fréttinni að nokkuð sé algengt að þeir geri það.

Einn þeirra sem nú bíður dóms er Baldur Guðlaugsson, fyrrverandi ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu. Héraðsdómur dæmdi hann í tveggja ára fangelsi í fyrra fyrir að nýta sér innherjaupplýsingar þegar hann seldi hlutabréf í Landsbankanum skömmu fyrir hrun. Baldur hagnaðist um 193 milljónir á viðskiptunum, en nokkrum dögum síðar voru bréfin verðlaus.

Ekki er algengt að svo margir dómarar, hálfur hæstiréttur, telji sig ekki hæfa til að dæma í einstökum málum. Þetta er þó ekki einsdæmi, segir Þorsteinn A. Jónsson, skrifstofustjóri réttarins í samtali við Ríkisútvarpið.