*

miðvikudagur, 20. október 2021
Innlent 29. apríl 2021 11:08

Herinn seldi einbýli á 248 milljónir

Hjálpræðisherinn hefur selt 512 fermetra einbýlishús á móti gömlu Gamma höfuðstöðvunum fyrir 248 milljónir króna.

Ritstjórn
Húsið á Garðastræti 38 er beint á gömlu Gamma höfuðstöðvunum.
Aðsend mynd

Hjálpræðisherinn seldi 512 fermetra einbýlishús á Garðastræti 38 fyrir 248 milljónir króna í byrjun mars en ásett verð var 279 milljónir. Kaupendur eru Kjartan Haukur Kjartansson og Viðar Reynir Helgason.

Eignin stendur á 577 fermetra lóð, en í húsinu eru fjórar íbúðir sem hafa verið að hluta til í útleigu. Í húsinu eru 15 herbergi, þar af 11 svefnherbergi, þrjár stofur og fimm baðherbergi auk 21,5 fermetra bílskúrs. Húsið stendur á móti Garðastræti 37, þar sem höfuðstöðvar Gamma voru, en sú eign var seld fyrir 420 milljónir króna í byrjun árs, að því er Fréttablaðið greindi frá. 

Ingvi Kristinn Skjaldarson, einn foringja hersins í Reykjavík, sagði við Viðskiptablaðið í byrjun árs að andvirði sölunnar muni fara í að fjármagna uppbyggingu á nýja Herkastalanum. Kostnaður við byggingu nýja kastalans er kominn yfir 800 milljónir króna en samtökin eru þó skuldlaus, að sögn Ingva. Hjálpræðisherinn seldi gamla Herkastalann við Kirkjustræti 2 fyrir 630 milljónir árið 2016.