Hægt er að bæta lífskjör í Danmörku verulega með því að fella niður mið- og hátekjuskatt. Yrði þetta gert yrði ávinningurinn um 15.000 danskar krónur á ári á hvert mannsbarn í Danmörku. Þetta kemur fram í Børsen í dag þar sem sagt er frá útreikningum Dansk Industri.

Þar segir ennfremur að tekjutap ríkisins vegna minni skatttekna sé mun minni en ávinningurinn fyrir landið í heild. Ástæðan sé sú að Danir verði vinnufúsari og auk þess verði framleiðnin meiri þegar það borgar sig betur að keppast eftir bónusum eða auknum frama í starfi.

Tina Roed, framkvæmdastjóri hjá DI, hvetur danska þingið til að fella niður þessa skatta. „Þetta er það besta sem hægt er að gera fyrir samfélagið. Það er hægt að auka velferð allra ótrúlega mikið með því að fella niður mið- og hátekjuskattinn,“ hefur Børsen efir Tina Roed.

Að sögn Børsen hefur DI áður reiknað út að um 30.000 vel menntaðir Danir hafi valið annað land en Danmörku til að starfa í, þar sem skatturinn sé svo miklu hærri en erlendis.