Greiningadeild Íslandsbanka spáir 1,0% hækkun vísitölu neysluverðs í mars. Spáð er 6% hækkun á verði á fötum og skóm sem hafi áhrif til 0,35% hækkunar á VNV. Þá hefur hækkun eldsneytisverðs á undanförnum vikum áhrif til hækkunar vísitölunnar. Húsnæðisliður vísitölunnar mun einnig hafa áhrif til hækkunar samkvæmt spánni, ekki síst vegna talsverðrar hækkunar á viðhaldskostnaði. Þá kemur gengislækkun krónu síðustu mánuði nú fram í almennri hækkun á innfluttum vörum.

Greiningardeildin spáir verðbólguaukningu úr 6,3% í 6,4% í kjölfar vísitöluhækkunar en gera svo ráð fyrir hægri hjöðnun verðbólgu næsta árið. Þó er gert ráð fyrir áframhaldandi hækkun VNV en greiningardeildin telur að áfram muni húsnæðis- og ferðaliðir vísitölunnar ýta henni upp á við, auk þess sem áhrif veikingar krónunnar haldi áfram að koma fram.

Spáð er 2,1% hækkun VNV á næstu þremur mánuðum og að verðbólga muni hjaðna í 5,6% í maí. Greiningardeildin spáir því að verðbólga fari niður í 4,6% í árslok og að hún mælist 3,6% yfir árið 2013. Þetta er þó háð því að krónan gefi sé ekki umtalsvert eftir til viðbótar.