Vísindamenn líftæknifyrirtækjanna NimbleGen Systems, Urðar Verðandi Skuldar (UVS) og Ludwig Institute for Cancer Research (LICR) í San Diego hafa hlotið 1,7 milljóna dollara eða sem nemur ríflega 104 milljónum króna í rannsóknastyrk frá Krabbameinsstofnun Bandaríkjanna (National Cancer Institute). Styrkurinn er veittur til fimm ára og fer til verkefnis sem ætlað er að kortleggja mikilvæga stjórnferla í krabbameini.

Verkefnið byggist á notkun nýlegrar aðferðar sem Nimblegen Systems hafa þróað til að kortleggja starfsemi ákveðinnar gerðar af stjórnpróteinum, svonefndum umritunarþáttum. Á ensku nefnist þessi aðferð chromatin immunoprecipitation microarray analysis eða ChIP-chip. Verður aðferðinni beitt á bæði frumulínur og krabbameinssýni. ?Markmiðið er að athuga hvernig umritunarþættir haga sér í krabbameinum,? segir Dr. Roland Green, yfirmaður rannsókna og þróunar hjá NimbleGen og verkefnisstjóri þessa verkefnis.

Vísindamenn NimbleGen og LICR hafa áður starfað saman að þróun ChIP-chip tækninnar og birtu nýlega grein í tímaritinu Nature um kortlagningu á starfsemi ákveðinna umritunarþátta í frumulínum. Krabbameinsstofnun Bandaríkjanna styrkir nú framhald þessa verkefnis sem miðar að því að beita ChIP-chip aðferðinni á frumulínur og krabbamein til að kortleggja mismuninn á heilbrigðum vef og æxlisvef. ?Við munum beina sjónum að starfsemi nokkurra mikilvægra umritunarþátta í brjóst- og ristilkrabbameini en niðurstöðurnar ættu að auka skilning okkar á tilurð og hegðun þessara krabbameina,? segir Dr. Bing Ren, yfirmaður Rannsóknastofu í genatjáningu hjá LICR.

UVS leggur til verkefnisins sérfræðiþekkingu á krabbameinum. Auk þess verður krabbameinssýnum og upplýsingum um sjúklinga safnað sérstaklega fyrir verkefnið en þessi gögn fást úr Íslenska krabbameinsverkefninu. ?Kortlagning á bindisetum umritunarþátta í æxlum mun varpa ljósi á af hverju krabbameinsfrumur eru öðruvísi en heilbrigðar frumur. Slíkar upplýsingar má nota til að finna markgen sem síðan má nota til að greina og jafnvel meðhöndla sjúkdóminn en það er einmitt markmið Íslenska krabbameinsverkefnisins,? segir Eiríkur Steingrímsson, yfirmaður rannsóknasviðs UVS.

NimbleGen Systems, sem er leiðandi í framleiðslu á sérsniðnum DNA örflögum og veitir þjónustu á því sviði, hefur þróað s.k. MAS-tækni sem eykur sveigjanleika í hönnun. Með örflögutækni NimbleGen má fá skýra mynd af erfðafræði og starfsemi fruma og því sem fer úrskeiðis í sjúkdómum eins og krabbameinum. Framleiðslu- og þjónustumiðstöð NimbleGen Systems er á Íslandi.

The Ludwig Institute for Cancer Research (LICR) er ein stærsta alþjóðlega rannsóknastofnun veraldar sem helgar sig rannsóknum á krabbameini. LICR rekur 10 rannsóknastofnanir í sjö löndum og tengist bæði stofnunum og fyrirtækjum.

Urður Verðandi Skuld (UVS) er líftæknifyrirtæki sem vinnur að rannsóknum á líffræði krabbameins í þeim tilgangi að finna leiðir til greiningar og meðferðar sjúkdómsins. UVS hefur leitt Íslenska krabba-meinsverkefnið í samstarfi við krabbameinslækna, stærstu sjúkrahús landsins og Krabbameinsskrá.