Mest hækkuðu hlutabréf Eimskips um 2,9% í 108 milljóna króna viðskiptum. Standa þau í 142 krónum og þau lækkað um 27% það sem af er ári. Heildarvelta á hlutabréfamarkaði nam 935 milljónum króna í 86 viðskiptum. Úrvalsvísistala OMXI10 hækkaði um 0,05% og stendur í 2.107 stigum.

Næst mest hækkuðu hlutabréf Icelandair um 2,61% og standa bréfin í 1,18 krónum en velta með bréfin var um fjórar milljónir króna. Mest velta var með bréf Arion banka um 411 milljónir króna og hækkuðu bréfin um 2,55% og standa í 72,3 krónum.

Hlutabréf Reita hækkuðu um 0,59% og standa þau nú í 42,9 krónum hvert, þau náðu sögulegu lágmarki í síðustu viku. Sömuleiðis hækkuðu hlutabréf Regins um 0,88% og standa þau í 14,33 krónum.

Sjá einnig: Heiðar kaupir fyrir 134 milljónir

Eftir 16% hækkun á hlutabréfum Sýnar síðasta fimmtudag hækkuðu þau um 0,37% í viðskiptum dagsins sem námu 36 milljónum króna.

Stór félög leiddu lækkun dagsins. Hlutabréf Símans lækkuðu mest eða um 0,89%, Marel lækkaði um 0,7% og bréf Festi sömuleiðis en í einungis 206 þúsund króna viðskiptum. Bréf Sjóvá lækkuðu um 0,49%.