Hlutabréf lækkuðu í Asíu í dag eftir að hafa hækkað í gær og voru það helst hrávöruframleiðendur sem leiddu lækkanir dagsins að sögn Bloomberg fréttaveitunnar en verð á olíu lækkaði um 2,5% í gær ásamt því að verð á öðrum hrávörum lækkaði nokkuð í gærdag.

Þannig lækkaði stærsta olíufyrirtæki Ástralíu, BHP um 3,4% og stærsta olíufyrirtæki Japans, Inpex um 4,6% svo dæmi séu tekin.

MSCI Kyrrahafs vísitalan lækkaði um 1% en fyrir hvert hlutabréf sem hækkaði lækkuðu tvö á móti. Vísitalan hefur lækkað um 6,6% það sem af er árinu.

Í Japan lækkaði Nikkei vísitalan um 1,3%, í Hong Kong lækkaði Hang Seng vísitalan um 0,1% og Kína lækkaði CSI 300 vísitalan um 0,75%.

Þá lækkaði S&P 200 vísitalan í Ástralíu um 1,2% en í Singapúr hækkaði Straits vísitalan aftur á móti um 0,5%.