Núverandi rekstur Plastprents stendur ekki að óbreyttu undir þeirri skuldabyrði er hvílir á herðum félagsins. Stjórn félagsins hefur boðað til hluthafafundar í byrjun ágúst þar sem lögð verður fyrir tillaga um að hlutafé félagsins verði fært niður að öllu leyti, núverandi hluthafar falli frá forkaupsrétti á nýjum útgefnum hlutum að fjárhæð 500 þúsund krónur og rekstrinum verði breytt í einkahlutafélag.

Landsbankinn (NBI), stærsti lánveitandinn, hyggst nýta sér réttinn til þess að umbreyta skuldum yfir í hlutafé. "Nái umrædd tillaga ekki fram að ganga er einsýnt að stjórn félagsins mun eiga einskis annars úrkosti en að leita nauðasamninga eða óska eftir gjaldþrotaskiptum á búi félagsins," segir í bréfi frá Vestiu til hluthafa.

Þetta er liður í áformum Eignarhaldsfélagsins Vestiu, dótturfélags NBI, að selja Plastprent í opnu tilboðsferli eftir að tryggð hefur verið eiginfjárstaða og greiðsluhæfi félagsins hefur verið fært í viðunandi horf eftir fjárhagslega endurskipulagningu.

Vestia heldur utan um 72% hlut í Plastprenti en hefur boðist til að kaupa útistandandi bréf 77 annarra hluthafa fyrir 5,5 aura á hlut, alls tæpar 20 milljónir króna, til þess að tryggja að smærri hluthafar sitji við sama borð og fyrrum hluthafar. Þar er um að ræða sama verð og NBI greiddi fyrir bréf skilanefndar Glitnis og Kvosar hf. í desember 2009.

-Nánar í Viðskiptablaðinu