*

mánudagur, 3. ágúst 2020
Innlent 31. maí 2020 12:02

Hluti hafði hækkað veglega síðustu ár

Laun forstöðumanna ríkisstofnana hækkuðu um 6,3% þann 1. apríl síðastliðinn. Hluti þess hóps hafði áður fengið ríflegar hækkanir í fyrra og hittífyrra.

Jóhann Óli Eiðsson
Páll Matthíasson er sem fyrr langlaunahæsti forstjóri ríkisstofnana.
Birgir Ísl. Gunnarsson

Laun forstöðumanna ríkisstofnana hækkuðu um 6,3% þann 1. apríl síðastliðinn. Hluti þess hóps hafði áður fengið ríflegar hækkanir í fyrra og hittífyrra.

Ný launatafla fyrir forstöðumenn ríkisstofnana tók gildi í byrjun árs 2019 og voru áhrif hennar mismunandi. Um tveir af hverjum þremur stjórnendum hækkuðu í launum, þar af voru 23 embætti sem fengu tíu prósenta hækkun eða meira, en um þriðjungur lækkaði í launum. Breytingar um þriðjungs voru litlar og nánast hægt að segja að þeir hafi staðið í stað.

Hluti þeirra sem fengu hækkunina í fyrra hafði fengið nokkra hækkun með síðustu ákvörðun kjararáðs en sem dæmi um slíkt má nefna ríkisskattstjóra. Sá hækkaði um 26,5% árið 2018 og svo aftur um 16,2% ári síðar. Forstöðumönnum gafst kostur á að gera athugasemdir við matið og leiddi það til þess að fimmtán hækkuðu í launum síðasta haust. Sú hækkun nam sjö til níu prósentum.

Sjá meira: Ríkisforstjóralaun hækkuð í faraldri

Í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins er nú kveðið á um það hvernig staðið skal að kjarabreytingum forstöðumanna stofnanna. Er þar meðal annars kveðið á um að eigi sjaldnar en árlega skuli meta hvort tilefni sé til þess að endurmeta fjárhæðir til samræmis við launaþróun. Ekki er hins vegar kveðið á um það með jafn afdráttarlausum hætti hvaða meðaltal skuli miðað við og í tilfelli þeirra hópa sem fá laun samkvæmt fastákveðinni tölu í lögum.

Sá hópur hækkaði um síðustu áramót en hækkunin gleymdist að vísu og var framkvæmd í apríl. Hækkunin nam 6,3% og byggðist á breytingu á meðaltali launa opinberra starfsmanna árið 2018. Hækkunninni hafði verið slegið á frest í fyrra vegna gerð kjarasamninga á almennum markaði. Hækkun þessa árs, sem hefði átt að koma til framkvæmda í byrjun júlí, var einnig slegið á frest nú vegna efnhagsástandsins í þjóðfélaginu. 

Dæmi um nokkrar breytingar:

  • Forstjóri Landspítalans - úr 2.590.000 kr. í 2.750.000 kr. 
  • Rektor Háskóla Íslands - úr 1.750.000 kr. í 1.860.000 kr. 
  • Veðurstofustjóri - úr 1.600.000 kr. í 1.701.000 kr.
  • Forstjóri ÁTVR - 1.450.000 kr. í 1.514.000 kr. 
  • Forstjóri MAST - úr 1.600.000 kr. í 1.701.000 kr. 

Sem dæmi um breytingar á síðustu árum má nefna að laun veðurstofustjóra hækkuðu um 29,8% í fyrra og laun rektors HÍ um 8,3%. Þar áður hafði sú staða fengið 23,5% hækkun árið 2018. Forstjóri MAST hækkaði um 20,8% í fyrra en þar áður um 11,1%. 

Rétt er að geta þess að ýmsir forstjórar ríkisins hafa verið afar ósáttir með svanasöng kjararáðs og fór það svo að Félag forstöðumanna ríkisstofnana leitaði til umboðsmanns Alþingis vegna þessa. Sá hefur ekki skilað áliti vegna málsins.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér