Greining Glitnis kynnti nýja þjóðhagsspá sína fyrir tímabilið 2006- 2010 á fjölmennum morgunverðarfundi á Hótel Nordica í morgun. Á fundinum sagði Ingólfur Bender forstöðumaður greiningar Glitnis að framundan væri aðlögunartími í átt að jafnvægi í hagkerfinu eftir tímabil mikils óstöðugleika.

Ingólfur sagði að nú væru mörg teikn á lofti sem bentu til þess að hagkerfið væri nú byrjað að kólna eftir ofhitnunarskeið síðustu missera og benti í því sambandi á að útlán bankanna væru að dragast saman, íbúðaverð fari lækkandi og hlutabréfamarkaðurinn hafi tekið niðursveiflu á árinu. Þá sé framkvæmdum á Austurlandi að ljúka og allt bendir til þess að einkaneysla og innlend eftirspurn sé að dragast saman.

Að sögn Ingólfs verður aðlögunin verður ekki sársaukalaus en hagvöxtur mun dragast saman og verða 4,2% á þessu ári og 0.3% á næsta ári. Samdráttarskeiðið mun þó ganga hratt yfir og árið 2008 mun nýtt hagvaxtarskeið hefjast sem verður drifið áfram af auknum útflutningi og frekari útrás innlendra fyrirtækja.

Á tímabilinu 2008 til 2010 gerir greining Glitnis ráð fyrir að meðaltali 3% hagvexti. Á sama tímabili mun verðbólga vera í kringum 2,3% sem er í takt við verðbólgumarkmið Seðlabankans. Seðlabankinn mun samkvæmt spám greiningar Glitnis ná verðbólgumarkmiði sínu á lok næsta árs.

Mjúk lending framundan

Ingólfur sagði á fundinum í morgun að vissulega væru leiðirnar sem hagkerfið gæti farið í átt að jafnvægi nokkrar. Og alls ekki væri víst að hagkerfið færi þá leið sem Greining Glitnis spáir nú. Einnig gæti hagkerfið farið leið óhófs, en það gæti gerst ef þennslan heldur áfram. Þetta gæti til að mynda gerst ef að ójafnvægið í hagkerfinu verður ekki lagað og ef væntingar um frekari stóriðjuframkvæmdir á næstu árum ná að skjóta rótum meðal markaðsaðila.

Önnur leið væri danska leiðin í átt að jafnvægi. Á þessari leið myndi íslenska hagkerfið dragast saman um 5-10% á næstu tveimur árum. Þetta er sú leið sem Danske Bank spáði fyrir um í svörtu skýrslu sinni um íslenska hagkerfið í mars síðastliðnum.

Sú leið sem Greining Glitnis telur að verði farin er hólótta leiðin að mjúkri lendingu. Það sem gerir mjúka en holótta lendingu að líklegustu leiðinni er að mati greiningar Glitnis að hagkerfið hefur sýnt fram á mikinn sveigjanleika og aðlögunarhæfni. Einnig er eignarstaða heimilanna góð og fyrirtækin í landinu standa traustum fótum.

Íbúðaverð mun dragast saman um 5- 10%

Á fundinum flutti Ingvar Arnarson erindi um þróun íbúðaverðs og kynnti spá Glitnis í þeim efnum. Ingvar sagði að nú væri við lýði kaupendamarkaður á húsnæðismarkaði og að öllum líkindum myndi húsnæðisverð dragast saman um 5-10% á næstu 12 til 24 mánuðum. Ingvar benti þó á að slík lækkun væri óveruleg þegar haft er í huga að íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað um 50% síðan í ágúst 2004 þegar bankarnir komu inn á húsnæðislánamarkaðinn.